145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er manni eiginlega öllum lokið. Ekki bara eru vinnubrögðin í fjárlaganefnd eða hjá forustu hennar þannig að hér hefur heill mánuður aukalega ekki dugað henni til að ljúka verki á tilsettum tíma og hún fór tíu daga fram yfir heldur lesum við nú um það á vefmiðlum á þessu kvöldi að eftir að forusta fjárlaganefndar hefur afgreitt fjáraukalagafrumvarpið sjálft endanlega frá sér til 3. umr. flytur formaður nefndarinnar breytingartillögu upp á 1.192 milljónir vegna mistaka sem urðu við meðferð fjáraukalagafrumvarpsins í ráðuneytinu og hjá nefndinni. Það gleymdist að færa inn launahækkanir kennara í fjáraukalagafrumvarpið.

Virðulegur forseti. Er ekki ástæða til að fjárlaganefnd fái bara þessi mál til sín, (Forseti hringir.) opni þau aftur og fari vel yfir hvort gerð hafi verið fleiri slík mistök á öllum þessum langa tíma og í allri þessari miklu vinnu sem hefur farið langt fram yfir áætlanir og varða einhverjar svona stórkostlegar fjárhæðir?