146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:35]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Þann sem hér stendur langar að spyrja ríkisstjórnina hvort einhvern tíma hafi borið á góma að selja ekki bankana. Var sá kostur nokkurn tímann metinn gagnvart stefnunni um að selja bankana alla eða að hluta?

Í fjármálastefnunni sem við ræðum nú og þaulræðum raunar er gert ráð fyrir að selja fleiri eignir en bankana. Ég nefni til dæmis Isavia, opinbert fyrirtæki sem hefur sogað til sín mestallt fjármagn frá öllum innviðum flugsamgangna Íslands. Ég ræddi málið við stjórnarliða. Til að slá á áhyggjur mínar var mér tjáð að það ætti mögulega bara að selja flughöfnina sjálfa, ríkið myndi áfram eiga flugbrautirnar. Ég verð að játa að uppsetning tollhliða á flugbrautum til þess að fjármagna viðhald þeirra hugnast mér ekkert sérstaklega vel. Einkavæðing þessa hluta flugsamgangna sem einhver arður er af er fásinna.

Lengra má taka þennan þráð. Mönnum hefur orðið tíðrætt um að nú sé einnig lag að selja Landsvirkjun. Stefnan sem ríkisstjórnin virðist ætla að reka er að selja eða, ef gróft er tekið til orða, stela öllum tekjulindum ríkisins en samhliða draga úr skattheimtu. Hvaða fjármunir eiga þá að fara í uppbyggingu innviða? Hvernig væri sú hugmynd að marka stefnu í sölu ríkiseigna og leggja síðan í dóm þjóðarinnar? Vilja Íslendingar einkavæða Isavia? Er þjóðarvilji til að einkavæða Landsvirkjun? Ættum við að selja bankana?

Skemmst er að minnast að við byggingu Kárahnjúkavirkjunar var sú aðgerð talin stór orsakavaldur í ofhitnun hagkerfisins á þeim tíma. Gæti verið að fjármálastefnan sé að einhverju leyti aðgerð stjórnvalda til að trassa vísvitandi vegagerð samhliða því að gera gegndarlaust skurk í virkjunarframkvæmdum? Á bls. 6 í greinargerð með tillögunni kemur klausa sem rökstyður áhyggjur mínar að hluta. Með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af nauðsyn á samhæfðri og heildstæðri stefnu í fjármálum hins opinbera og opinberra aðila er leitast við að tryggja að umsvif fyrirtækja í opinberri eigu vinni með en ekki gegn settum hagstjórnarmarkmiðum. Erfitt er hins vegar að beita æskilegu aðhaldsstigi hjá þessum fyrirtækjum á allra næstu árum þar sem mikil þörf hefur myndast fyrir uppbyggingu í innviðum, til að mynda á sviði flugsamgangna og orkumiðlunar, auk þess sem ljúka þarf við verkefni í orkuöflun sem þegar eru hafin. Ákvarðanir um nýjar fjárfestingar þarf að byggja á skýrum arðsemisforsendum og þær þarf að tímasetja með hliðsjón af efnahagshorfum.“

Skýrar arðsemisforsendur, virðulegi forseti. Ekki virðist stjórnarliðum ganga neitt annað til en gróðinn einvörðungu. Þess vegna talar hæstv. samgöngumálaráðherra um vegatolla.

Á bls. 8 í greinargerð á eftir feitletraða orðinu varfærni, stendur, með leyfi forseta:

„Varfærni skal ríkja til lengri tíma í fjármálum hins opinbera, þ.e. að forðast skuli ákvarðanir sem geta haft ófyrirséðar neikvæðar afleiðingar og að hæfilegt jafnvægi sé fyrir hendi milli tekna og útgjalda.“

Hvernig getur slík nálgun átt við samhliða sölu bankanna? Rannsóknarskýrslan sem var til umræðu rétt áður en ég tók til máls sýndi svart á hvítu að íslenska ríkið er ófær aðili til þess að selja fjármálafyrirtæki, afleiðingarnar eru ófyrirséðar. Með núverandi regluverki eins og það er uppsett er engin leið til að tryggja að það liggi fyrir hver kaupandinn sé, hvað honum gengur til. Síðustu dæmi sýndu að með 10% reglunni er raunar létt verk að komast hjá öllum tækjum ríkisins til þess að veita nauðsynlegt aðhald gagnvart við krosseignatengslum og annarlegum hvötum peningamanna og fjársterkra aðila til að ganga á milli bols og höfuðs á íslenskri þjóð og peningastefnu.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar undir liðnum Sala á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum, segir í fjórðu málsgrein, með leyfi forseta:

„Vanda verður til undirbúnings sölu á eignarhlutum ríkisins í viðskiptabönkunum og skapa þannig traust á söluferlinu. Meiri hlutinn er ekki með beinar tillögur í þeim efnum en bendir á möguleika á að leita til erlendra aðila um ráðgjöf og umsýslu vegna sölu. Það gæti aukið traust á söluferlinu sjálfu og skapað þann frið um það sem nauðsynlegur er. Fyrir þann tíma þarf að liggja fyrir hvernig ríkisvaldið telur að eignarhaldi bankanna verði best fyrir komið til langs tíma. Hugsanlega þarf að marka ramma um hámarkshlut einstakra hluthafa og takmarka krosseignatengsl eftir því sem frekast er kostur. Koma þarf í veg fyrir óeðlilega og óæskilega hagsmunaárekstra og tengsl. Æskilegt er að leita eftir kjölfestufjárfestum meðal erlendra fjármálafyrirtækja.“

Var það ekki erlent fjármálafyrirtæki sem síðan leyndi raunverulegum kaupendum við sölu Búnaðarbankans? Hér talar ríkisstjórnarhluti fjárlaganefndar fyrir því að sú aðferð sem var notuð áður verði notuð aftur eftir að Alþingi hefur rætt það.

Virðulegi forseti. Ég hef minnstan áhuga á að tala út í hið óendanlega um setta fjármálastefnu. En að mínu mati ætlar ríkisstjórn Íslands að endurtaka allan sama skollaleikinn og þegar Ísland riðaði til falls í síðustu uppsveiflu. Alveg sama hve mörgum rúmmetrum af orðagjálfri og fallegum fyrirheitum af hálfu stjórnarliða er raunveruleikinn sá að hér hefur ekkert breyst. Þrefalt húrra fyrir „þjófflokknum“, einkavæðið allt, skilið lyklunum og drífið ykkur til Tortólu.