146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022, stefnu nýrrar ríkisstjórnar til fimm ára í samræmi við nýja lagasetningu um opinber fjármál.

Hér hafa verið ræddar og reifaðar ýmsar hliðar málsins, bæði formið og innihaldið. En mig langar til að byrja á því sem fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fjalla stuttlega um þær efasemdir sem hafa komið upp í umræðu innan nefndarinnar að því er varðar lög um opinber fjármál og að hve miklu leyti þau stangast mögulega á við stjórnarskrá.

Hér er auðvitað um að ræða grundvallaratriði. Þetta álitamál er til skoðunar núna hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ef á daginn kemur að þessi lagasetning stenst ekki stjórnarskrá þarf augljóslega að fara í þá vegferð að færa það allt saman til betri vegar því eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna þá er, ef í harðbakkann slær, a.m.k. eitthvert hald í stjórnarskrá Íslands frammi fyrir löggjöf sem er á gráu svæði gagnvart henni.

Í umfjöllun nefndarinnar hafa komið fram efasemdir sérstaklega að því er varðar að ekki sé nægilega vel búið um fjárstjórnarvald Alþingis, ekki sé nægilega tryggt í lögunum að það sé fyrir hendi. Hér sé verið að færa of mikið til framkvæmdarvaldsins af fjárstjórnarvaldi Alþingis sem er varið í 41. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Og í 42. gr.:

„Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.“

Þannig er mjög skýrt um það fjallað hvar þetta vald í raun og veru liggur og efasemdir uppi um að vilji löggjafans á þessum tímapunkti hafi staðið til þess að einhverju leyti að afhenda það framkvæmdarvaldinu í of ríkum mæli. Um þetta erum við sérstaklega að fjalla á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og vildi ég geta þess hér í umræðunni af því að um það hefur ekki verið fjallað sérstaklega.

Í öðru lagi vil ég velta upp þeirri spurningu, af því að það hefur kannski heldur ekki borið á góma hér, að hér er um að ræða auðvitað afstöðu ríkisstjórnarinnar til framtíðar, til næstu fimm ára, um það hvernig beri að ráðstafa opinberu fé og hver ramminn eigi að vera í þeim efnum. Nú er það svo að ríkisstjórnin var mynduð við mjög óvenjuleg skilyrði og ekki síst á mjög óvenjulegum tíma. Af þeim sökum hafði ríkisstjórnin ekki þann hefðbundna tímaramma við að miða sem leiðir af vorkosningum. Þannig er engu líkara en að hæstv. fjármálaráðherra sitji uppi með að mjög stórum hluta útlínur og grunn frá sínum forvera, Bjarna Benediktssyni, núverandi forsætisráðherra, í því hvernig hann og hans fjármálaráðuneyti sá fyrir sér rammann til næstu fimm ára. Nú hefur það ekki komið fram í máli stjórnarliða hvaða breytingum þessi stefna tók frá þeim drögum sem lágu fyrir við ríkisstjórnarmyndun og fram að þeim tímapunkti þegar hæstv. fjármálaráðherra síðan leggur stefnuna fram. Við þessu þurfum við að fá svör.

Nú er það oft þannig þegar við erum með ítarlega umræðu hér í þinginu, sem sumir efast um að eigi rétt á sér, hefur hún tilhneigingu til að dýpka skilning okkar allra á því hvað er á ferðinni. Það er ekki síður þannig núna. Nú finnst mér það orðið lýðum ljóst, eftir samtal við þingmenn úr mörgum flokkum, bæði hér frammi og ekki síður í þingsal, að það er ótækt að ljúka afgreiðslu fjármálastefnunnar án þess að við vitum útlínur fjármálaáætlunarinnar. Um svo afdrifaríkt mál getum við ekki fjallað með afgerandi hætti inn í framtíðina og lokað okkur þar með inni, mögulega, má segja, velferðarkerfinu og innviðum samfélagsins til höfuðs. Það gengur einfaldlega ekki. Það er óábyrgt.

Nú finnst mér allar líkur á, í ljósi laga um að fjármálaráðherra beri að leggja áætlunina fram á morgun, þá munum við sjá hvernig hún lítur út áður en við afgreiðum stefnuna eftir 2. umr. Þetta er mikilvægt.

Við höfum töluvert fjallað hér um umbúnað málsins, þá staðreynd að stefnan er til grundvallar og síðan byggir áætlunin á henni og síðan í framhaldinu fjárlagafrumvörp hvers árs fyrir sig, og það hversu afdrifaríkt þetta mál er. En við höfum líka í ágætri umræðu undanfarna daga, fjallað um inntak þessarar stefnu. Það er auðvitað það sem mestu máli skiptir, að horfa til þeirra pólitísku áherslna sem í stefnunni felast. Hér kemur fram að forsendur áætlunarinnar eru áframhaldandi stöðugur hagvöxtur út allt spátímabilið og eins og kemur raunar fram í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar eiga allar viðbætur inn í innviði samfélagsins að rúmast innan sveiflunnar. Það er í raun og veru undirtónninn þar og það sama hér. Það er gert ráð fyrir að ef eitthvert slíkt svigrúm bregðist eða eitthvað breytist þá sé ekki inni í myndinni að afla nýrra tekna. Það liggur algerlega fyrir.

Hér er því í raun um að ræða mjög afgerandi hægri nálgun og hægri pólitík. Ekki síður kemur hér fram að í raun er um að ræða niðurskurð þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðu aðhaldi á tímabilinu auk þess sem með óljósum hætti er rætt um einkavæðingu og möguleika á, eins og stendur í nefndaráliti meiri hlutans með leyfi forseta, „að fjármagna hagræna innviði í samstarfi við stofnanafjárfesta, svo sem lífeyrissjóði“. Þetta er nokkurs konar nefndarálitsdulmál sem þýðir einkafjármögnun á opinberum innviðum.

Það er nú það sem manni gremst oftast í pólitík, þegar ítrekað ber við að svo virðist sem hægri mönnum finnist erfitt að koma fram sem hægri menn í aðdraganda kosninga. Það var meira að segja eftir því tekið þegar hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson kom fram í umræðuþáttum og ég man sérstaklega eftir einum þætti, ég nefni það hér, þar sem við vorum staddar báðar ég og Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og sátum við fyrir svörum hjá Páli Magnússyni, þá þáttastjórnanda, nú hv. þingmanni, sem vildi sérstaklega staldra við það að það væru miklir og sterkir velferðartónar hjá formanni Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga og taldi það til mikilla tíðinda. En það er auðvitað sígilt stef í aðdraganda kosninga að allir hægri flokkar draga upp þá mynd að þeir vilji gera allt fyrir samfélagið og allt fyrir innviðina en svo þegar kemur að framkvæmdinni heykjast þeir á því að sækja peningana þangað sem þeir eru, hafa efasemdir um allan þrepaskatt, efasemdir um hátekjuskatt og hækkun veiðigjalda og gjöld af auðlindum almennt og vilja kannski miklu frekar draga saman útgjöld hins opinbera, sem þýðir ekkert annað en að gengið er áfram á innviðina og áherslur enn frekar lagðar á gjaldtöku í þjónustunni, þ.e. að fólk borgi fyrir þá þjónustu sem það þiggur hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða annars staðar.

Hér var vikið að því fyrr í umræðunni að það hefði verið hressandi ef Viðreisn hefði einfaldlega boðið fram undir merkjum stöðnunar og hefði bara sagt það þá, því hér eru engar nýjar forsendur sem ekki lágu fyrir í kosningabaráttunni í október. Viðreisn með þá miklu talnaglöggu forystu sem þar er hefði nú getað áttað sig á því hverjar forsendurnar væru og þar með sagt kjósendum eins og var, þ.e. að hér væri ekki svigrúm fyrir nokkurn skapaðan hrærandi hlut og það stæði til áfram að leggja á samfélagið þannig að það myndi þurfa áfram að líða í raun og veru fyrir hægri stefnu, til að byrja með í aðdraganda hruns, hrunið og svo hægri stefnu aftur. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að íslenskt samfélag skuli þurfa að búa við stöðugt aðhald í svo langan tíma. Við erum í raun komin fram yfir sársaukamörk í sumum hlutum innviðanna eins og til að mynda í vegakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Allt vegna þess að hér skiptast á annars vegar afleiðingar hruns sem hægri flokkarnir bera ábyrgð á og hins vegar efnahagsstjórn þeirra sömu hægri flokka sem gera ráð fyrir að það megi aldrei undir nokkrum kringumstæðum styðja við okkar sameiginlegu innviði og okkar sameiginlegu eigur, sem samfélagið sannarlega er.

Mig langar líka að víkja aðeins að þáttum sem hafa komið fram alveg undir lok umræðunnar eða hér á undan mér. Það eru þættir sem lúta að umhverfissjónarmiðum. Þegar við vorum í ríkisstjórn á árunum 2009–2013, Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, dró úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það var ekki vegna þess að við værum svo frábær ríkisstjórn heldur vegna þess að það dró úr umfangi efnahagslífsins. Það er því miður svo að þessir þættir haldast algerlega í hendur, þ.e. hefðbundinn hagvöxtur leiðir af sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda og þar með meira álag á jörðina. Það er kannski stærsta áhyggjuefnið að sá mælikvarði sem við erum vön að miða okkur við þegar við horfum til þess hvort samfélag virki eða ekki er þessi hefðbundna hagvaxtarnálgun.

Í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað um að hagspáin, þ.e. áframhaldandi hagvaxtarskeið, sé forsendan og aðeins fjallað um aðaldrifkrafta þessa vaxtar sem séu innlend eftirspurn, atvinnuvegafjárfestingar og vöxtur ferðaþjónustu. Þetta er sannarlega annars konar inntak hagvaxtarins en var í aðdraganda hrunsins þegar við vorum að tala um froðu og skuldsetningu. En það er samt sem áður þannig að allur hagvöxtur sem byggir á ágengri nýtingu með einhverju móti er hagvöxtur sem tekur í raun gæðin af komandi kynslóðum. Ég sakna þess að við þessa fjármálastefnu samfélags sem nýlega hefur undirgengist skilmála Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum sé ekkert að því vikið að mælikvarðar loftslags og losunar gróðurhúsalofttegunda þurfi að vera leiðarljós í framkvæmd stefnunnar. Látum þá liggja á milli hluta hversu góð stefnan er eða slæm, hvort þessir rammar eru of víðir eða of þröngir, hvernig útgjaldaþakið er, prósenturnar og aðhaldið o.s.frv. En það er algert lágmark og annað er óviðunandi en að stórar áætlanir sem eru til langrar framtíðar séu fyrst og síðast í þágu loftslagsmarkmiðanna sem við höfum undirgengist. Það hlýtur að vera þannig. Það er í raun og veru tómt mál að tala um að verið sé að leggja áherslu á loftslagsmál ef það er ekki svo í allri stefnumörkun fyrir samfélagið. Nú bíð ég spennt eftir að sjá fjármálaáætlun á morgun: Er þar góður kafli um loftslagsmál? Er þar verið að fjalla um … Fyrirgefðu, forseti, nú þarf ég að hnerra. [Þingmaður hnerrar.] Ah, þetta verður í árshátíðarmyndbandi Alþingis.

Það er náttúrlega óviðunandi annað en að í svona stórum áætlunum sé fjallað um það sérstaklega og í ríkisfjármálaáætluninni sjálfri hlýtur það að vera leiðarstef, ef það er eitthvað að marka það sem við erum að segja, ég tala nú ekki um orð hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um að loftslagsmál séu núna ofar á dagskrá en þau hafi nokkurn tíma verið á byggðu bóli og nokkurn tímann í sögunni, sýnist mér, þá hlýtur það að vera til öndvegis í ríkisfjármálaáætlun. Mér finnst spennandi að sjá það. Það verður ekki bara sérstakur kafli um loftslagsmál heldur hlýtur það ekki síður að fléttast inn í alla aðra málaflokka ef eitthvað er að marka það sem hingað til hefur verið sagt. Það gildir líka um aðrar áætlanir sem væntanlegar eru. Loftslagsmálin hljóta þar að skipa mjög myndarlegan sess.

Virðulegur forseti. Við höfum hér fyrst og fremst beint sjónum okkar að því hversu vanbúið þetta er allt saman þrátt fyrir að hér sé um að ræða afdrifaríka stefnu til framtíðar. Ég verð að segja að eftir umræðu dagsins í dag þegar við erum að tala um skýrslu rannsóknarnefndar um einkavæðingu Búnaðarbankans og átta okkur á að það eru veruleg átök í forystu ríkisstjórnarinnar um þau mál, að hér er um að ræða ríkisstjórn sem hefur afar veikan meiri hluta, tæpasta mögulega meiri hluta á Alþingi, og er raunar eins og hefur ítrekað verið bent á ekki einu sinni með meiri hluta kjósenda á bak við sig. Ríkisstjórn sem stendur á brauðfótum sem þeim hefur auðvitað ekki þá stöðu — hún hefur jú umboð gagnvart þinginu og okkar stjórnskipulegu hefðum o.s.frv., en hefur hún stöðu til þess að koma fram með áætlun til fimm ára sem er svo lituð af pólitískri nauðhyggju og áherslu á mjög afgerandi hægri pólitík? Ég segi nei. Það er ekki svo.

Ríkisfjármálastefna og fjármálastefna af þessu tagi þarf að endurspegla mikilvægi þess þegar svo langt er liðið frá hruni að við reynum að ná einhvers konar jafnvægi í samfélagið, einhvers konar sameiginlegum skilningi á því hvert sé innihald samfélagssáttmálans. Um hvað snýst það að vera hér á þessu landi, þessi litla þjóð á þessu landi, og ætla sér að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum í að vera með mannsæmandi velferðarkerfi? Það er stóra málið. Í þessar stoðir hefur verið höggvið undanfarin ár í nafni hægri pólitíkur í aðdraganda hrunsins, hrunsins vegna og síðan í anda hægri stjórnmála síðan. Við þurfum svo sárlega á því að halda að við náum að endurreisa innviðina, hvort sem það eru vegir eða innviðir aðrir, til þess að við náum að standa undir nafni og að gildin eða meginsjónarmiðin til að mynda um sjálfbærni eigi sér einhverja stoð.

Ef ríkisfjármálastefna er ekki bara þannig að hún taki í raun ekkert tillit til loftslagsmarkmiða heldur líka þannig að hún feli beinlínis í sér að hér sé verið að halda áfram að éta samfélagið að innan, þá er það ekki sjálfbærni. Þá er verið að segja með þessari stefnu: Við ætlum komandi kynslóðum síðra samfélag en við búum við sjálf. Við ætlum komandi kynslóðum verri vegi en við búum við sjálf, verra heilbrigðiskerfi, verra menntakerfi o.s.frv. Allt í nafni þess að við ætlum í anda einhverrar nauðhyggju gagnvart excel-skjölum og dálkum að borga niður skuldir ríkissjóðs hraðar en skynsamlegt er gagnvart þessum sömu innviðum. Það er kjarni málsins.

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með að hér virðist vera að leysast úr læðingi sú staðreynd að við munum sjá ríkisfjármálaáætlun áður en við lokum þessari stefnu. Annað er óásættanlegt. Það er ólýðræðislegt og óskynsamlegt. Við erum að vinna á grundvelli nýrra laga. Við þurfum að gera það með opin augun. Það væri ótækt að samþykkja ríkisfjármálastefnu áður en ríkisfjármálaáætlun er fram komin vegna þess að þar með værum við í raun búin að loka okkur inni í spennitreyju og gætum ekki fjallað um útlínur áætlunarinnar. Það er með öllu óásættanlegt og hlýtur öllum að vera ljóst.

Þetta er allt saman undir. Mikilvægast af öllu er auðvitað að þessi ríkisstjórn sem hefur veikan meiri hluta fari frá. Ef hún ætlar að halda áfram á þessari braut sem birtist í þessu plaggi er enn ljósara hversu mikilvægt það er að hún fari frá og ríkisstjórn sem er í anda félagshyggju og jöfnuðar komi að völdum og setji fram áætlun í þeim anda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)