146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er að vísu gert ráð fyrir að afgangskrafan, ef við köllum hana það, fari aftur aðeins lækkandi í lokin á þessu fimm ára tímabili ef ég man rétt. Ég heyrði hæstv. ráðherra tala um það á dögunum, er það ekki bara hér á forsíðunni sem við sjáum að heildarafkoman á að fara úr 2,5% á árinu 2020. Hún á að vísu að vera á uppleið alveg samfellt þangað til, en eftir það slaknar aðeins á henni. Svo höfða menn mikið til þess að skuldirnar eigi að lækka og þá myndi minni vaxtakostnaður svigrúm, hagvöxtur og minni vaxtakostnaður myndi eitthvert svigrúm. En það eru allt fuglar í skógi. Hvers vegna að loka sig af, eins og ég orðaði það í minni fyrri ræðu, hvers vegna setja á sig fótjárn og læsa sig inni í klefa næstu fimm árin og henda lyklinum svona fyrir fram? Það hefur aldrei gefist vel að reyna að negla sig þannig niður fyrir fram. Það er næstum því jafn vitlaust og skattalækkanir sem eru lögfestar langt inn í framtíðina eins og menn gerðu á árunum 2003–2007 og gerðu að hluta til á síðasta kjörtímabili. Það er yfirleitt það óskynsamlegasta (Forseti hringir.) sem hægt er að gera vegna þess t.d. að skatta- og ríkisfjármálin almennt eru eitt (Forseti hringir.) kvikasta tæki sem við höfum til þess að vinna með eða á móti hagsveiflu.