146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Við erum búin að ræða ýmislegt undir þessum lið í dag og í gær. Mér finnst kannski helsta niðurstaðan vera sú að okkur er að takast það að geta horft á áætlunina meðfram stefnunni eins og við vildum gjarnan gera í ljósi þess hvernig málum er háttað og við teljum okkur ekki beinlínis ná utan um þetta.

Ég var á ársfundi Seðlabankans þar sem forsætisráðherra hélt ræðu. Nú er búið að færa Seðlabankann undir forsætisráðherra þannig að hann heldur áfram, búinn að tala á þessum ársfundum í þrjú ár og talaði nú á þeim fjórða þar sem eitt og annað kom fram. Meðal annars velti hann fyrir sér stöðugleika í efnahagsmálum sem hann taldi nú að flestir flokkar settu sér sem aðalverkefni og talaði um að það væri sett fram í því skyni að ná einhvers konar samkomulagi og sátt. Það sem vakti athygli mína var að hann talaði um að beita hagstjórnartækjum til að minnka sveiflurnar, af því að það er nú búið að taka samkvæmt fjármálaráði sveiflujöfnunina úr sambandi í þessari ríkisfjármálastefnu, og talaði um löstinn óþolinmæði. Við sem þjóð sættum okkur ekki við hægar breytingar, breytingar upp á einhver 3% hvort sem þar væri verið að tala um ríkisframlög, hækkun launa eða annað slíkt, það væri þörf fyrir svo miklu meira. Hann talaði líka um áætlunina sem verður lögð fram á morgun. Ég gat ekki betur heyrt en þar væri lögð áhersla á heilbrigðismálin og kannski fátt annað.

Ég spyr hv. þingmann, af því að ráðherra talaði líka um virðisaukaskatt og álögur á almenning og aukaálögur á ferðaþjónustu, hvort hann telji, í ljósi þess sem við höfum nú þegar heyrt, að farið verði í uppbyggingu innviða, (Forseti hringir.) ekki bara í heilbrigðismálum, heldur líka í menntamálum og í samgöngumálum og öðru slíku sem ákall hefur verið um.