146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar að halda áfram aðeins að rekja það sem fram kemur í þessu annars ágæta minnihlutaáliti, en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Það bendir til þess að ríkisstjórninni hafi nú þegar mistekist að innleiða nauðsynlega breytingastjórnun til að tryggja framgang nýrra laga um stjórn opinberra fjármála með því að beita einhliða boðvaldi í því sem átti að vera samráðsferli öllum til hagsbóta. Yfirgnæfandi líkur eru á að þau markmið sem sett eru um niðurgreiðslu skulda sveitarfélaga séu óraunsæ og því muni framlögð fjármálastefna ríkisstjórnarinnar ekki halda. Verði það raunin mun gildissvið laganna reynast takmarkaðra en ætlunin var. Fjórði minni hluti leggur áherslu á að draga beri úr þeim kvöðum sem lagðar eru á sveitarfélögin í ríkisfjármálastefnunni til þess að þau geti áfram greitt niður skuldir sína með eðlilegum hraða og viðhaldið nauðsynlegu framkvæmdastigi.“

Ég spyr hv. þingmann: Nú hreykja forkólfar þessarar ríkisstjórnar sér gjarnan af því að koma úr atvinnulífinu og vera góðir samningamenn. Finnst hv. þingmanni það vera merki um góða samningatækni að geta ekki komist að samkomulagi við jafn mikilvægar stofnanir og sveitarstjórnirnar?