146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:18]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti 3. minni hluta nefndarinnar segir í lokaorðunum á 4. bls., með leyfi forseta:

„Stefnunni fylgir engin sviðsmyndagreining en það þarf ekki stærðfræðing til þess að sjá að ef ekki verður vöxtur í fjölda ferðamanna, ef hægist um á húsnæðismarkaði eða einhver hiksti verður í þeim greinum sem hafa knúið áfram hagvöxt undanfarinna ára verður erfitt að framfylgja stefnunni og vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf á innviðum samfélagsins á sama tíma.“

Ætli það sé ekki einmitt ætlunin að láta gengið styrkjast gríðarlega og svo loksins þegar ferðamennirnir sjá sér ekki lengur fært að koma hingað verður kominn tími til að virkja aftur út í hið óendanlega?