148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:22]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En ég átta mig reyndar ekki alveg á þessu. Ég þekki umræðuna náttúrlega vel eins og hann um komugjöldin og fletti sérstaklega upp stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar gjaldtöku af ferðamönnum. En í stefnunni, í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu sem er nú til umræðu, er hreint og klárt talað um gjaldtöku á ferðamannastöðum. Sem ég get ekki túlkað sem komugjöld eða annað slíkt. Hann skoðar það kannski.

En það var önnur spurning, annað atriði, sem mig langaði að koma inn á í seinna andsvari. Í III. kafla hljómar síðasta setningin svo, með leyfi forseta:

„Við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs.“

Nokkuð sem er í mjög miklu samræmi við fyrri samtöl okkar hæstv. ráðherra í þessum sal. En mig langar að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort ekki kæmi til greina að fara svipaða leið og gert er með mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa, þannig að öll frumvörp verði hreinlega greind eða að gera þurfi grein fyrir mögulegum byggðaáhrifum.