148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir hans svör sem ég fagna. Ég vil hvetja hann til að íhuga þessa hugmynd mína og að næst þegar sóknaráætlun verður endurskoðuð verði Vestmannaeyjar gerðar að níunda svæðinu. Það er alveg sér. Þetta er fjölmenn byggð á litlu svæði og þarna er sérstakur lögreglustjóri og sýslumaður og héraðsdómstóll sem fer þarna út, þannig að það er mjög margt sérstakt þarna. Ég hvet hann til að íhuga þetta alla vega.

Annað sem ég ætlaði að spyrja um er efling sýslumannsembætta. Er það sérstaklega á dagskrá hjá ríkisstjórninni? Eða á að halda áfram að setja sýslumannsembættin í svo mikið salt að þau koðni niður og andist svo fljótlega þar á eftir? Þetta eru mjög mikilvæg embætti fyrir byggð úti á landi. Þarna vinna sérfræðingar og þetta er oft eini opinberi aðilinn á stóru svæði. Ég hvet hæstv. ráðherra til að standa vörð um þessi embætti og láta þau ekki koðna niður eins og allt stefnir í núna og er búið að vera undanfarin ár.

Ég vil spyrja um fæðingar í heimabyggð, þá er ég aftur kominn að Vestmannaeyjum. Ég sá í áætluninni það markmið að tryggja aðgengi að þjónustu vegna meðgöngu og fæðinga. Ég spyr: Er eitthvað í áætluninni um að það sé tryggt að t.d. Vestmannaeyingar geti fætt börn sín í Vestmannaeyjum? Er gert ráð fyrir því? Eða þurfa þeir að leggja í þann gífurlega kostnað sem þeir verða fyrir til að fara til höfuðborgarinnar stanslaust, tugum saman á hverju ári, með jafnvel maka og börn, og dvelja í höfuðborginni tvær til þrjár vikur árlega?

Annað helsta og stærsta byggðamálið eins og hæstv. samgönguráðherra veit auðvitað eru samgöngumálin. Nú vitum alveg hvernig samgönguáætlun fór. Þá spyr ég: Þessi góðu (Forseti hringir.) orð í þessari áætlun, eiga þau að vera fjármögnuð eða ekki?