148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir hans innlegg í umræðu um byggðaáætlun til næstu sex ára. En mér fannst hann tala eins og hann væri óvirkur áhorfandi að stefnu stjórnvalda síðustu árin; að farið hafi verið út í aðskilnað sýslumannsembættanna og lögregluembættanna með góðar fyrirætlanir en ekkert verið farið eftir því. Hann talaði þannig. Hann verður að leiðrétta mig ef ég misskil hann þarna.

Ég get hins vegar verið sammála þessari skoðun hans, ef hún er á þennan veg. Ég bara bendi á að hv. þingmaður talar eins og áhorfandi. (Gripið fram í.) Hann var í stjórn þegar þetta gerðist. Þetta gerðist á vakt Sjálfstæðisflokksins, aðskilnaður lögreglu og sýslumanna. Ef það hefur mistekist á einhvern hátt er ekki við neinn að sakast nema þá sjálfa.

Hvað gerðist við aðskilnað sýslumanns- og lögregluembættanna? Aðallega það að sýslumannsembættin voru skilin eftir eins og maður sem er grafinn ofan í holu í eyðimörk. Hann bara þornar upp. Fjármagn er ekki veitt til sýslumannsembættanna, ekki verkefnum, nema bara þarna um árið; örfáum verkefnum sem höfðu lítið að segja. Það þarf að gefa þarna í. Ég ætla að vona að hv. þingmaður sé mér sammála í því og hvetji til þess innan stjórnarinnar að verkefni verði færð af alvöru til þessara embætta þannig að þau deyi ekki drottni sínum. Ég bið hann að svara hvort hann vilji standa að því með mér og öðrum.

Það er líka hægt að flytja ýmislegt annað, hægt að flytja stofnanir í heilu lagi eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég spyr hvort hann hafi einhverjar skoðanir á því, einhverjar sérstakar stofnanir?