148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ég hafi komið hér oft upp í andsvör þá er alls ekki svo að ég finni þessari áætlun allt til foráttu, alls ekki, þetta er mjög margt gott. Ég vil líka nefna varðandi byggðamálin að fjölmargir staðir og svæði hafa auðvitað notið góðs undanfarin ár af aukningu ferðamannastraums þannig að umhverfið er allt annað en var fyrir tíu árum í þessum málefnum. Við erum að takast á við allt aðra hluti heldur en bara fyrir tíu árum síðan, svo það sé sagt.

Það sem ég hafði áhuga á að spyrja hv. þingmann um varðar listir og menningu sem eru af fjölbreyttum toga í landinu og margt styrkt og stutt af ríkisvaldinu. Ég nefni t.d. sinfóníur og óperur, listasöfn og fleira og fleira, ég kann alls ekki að nefna það allt saman, en gæti leitað mér fróðleiks þegar þar að kemur um hvað er þar undir.

Ég vil spyrja hv. þingmann um skoðun hans varðandi aðgengi fólks að þessum stofnunum, söfnum og því sem allir borgarar landsins borga auðvitað með sínum skattpeningum. Ég held að það sé kannski allt of lítið gert af því að flytja þessar stofnanir út á land, þ.e. viðburði á þeirra vegum út á landi. Ef ég nefni Íslensku óperuna og Sinfóníuna þá veit ég að eitthvað hefur verið gert af því, en ég vil spyrja hvort þær séu undir í lið C.15, þar sem gert er ráð fyrir 32 milljónum.