148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir prýðisgóða ræðu. Margt í henni myndi ég taka undir og geri. Sérstaklega þótti mér áhugaverður punkturinn, sem hann kom inn á, er sneri að því að það væri að öllum líkindum mikilvægara fyrir landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið að gjaldtaka væri framkvæmd með hófsömum hætti. Það eru aðrir slagir sem þarf að taka úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu þó að ekki sé búið að taka óþarflega mikið af sjálfsaflafé fyrirtækja inn í ríkissjóð.

Mér leikur hugur á að vita hvað hv. þingmaður sér fyrir sér í þeim efnum. Nú voru fjárlög samþykkt í desember, fjármálaáætlun samþykkt í síðustu viku. Þessi hófsamari gjaldtaka eða skattheimta, sem ég held að við séum báðir sammála um að væri mikill happafengur fyrir fyrirtæki og heimili á landsbyggðinni, hvernig sér hann þróunina fyrir sér miðað við þá fjármálaáætlun sem nýbúið er að samþykkja og stefnu ríkisstjórnarinnar í fjármálum almennt?