148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn er kunnugur víða á landsbyggðinni eins og margir hv. þingmenn vita og hefur, líkt og undirritaður, starfað í heilbrigðisþjónustu víða um land. Mig langar að ræða aðeins við þingmanninn um hvort hann sjái flöt á því að nota tæki eins og byggðaáætlun — ef við köllum byggðaáætlun tæki — með aðeins markvissari hætti til að taka á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, til að mynda með þeim hætti að nota byggðaáætlun til að efla menntun heilbrigðisstétta, til að tryggja að heilbrigðisstéttir séu tilbúnar til að koma út á land, annaðhvort með einhvers konar ívilnunum eða hlunnindum eða þess háttar, hvort þingmaðurinn sjái flöt á því. Ég spyr til dæmis hvort heilbrigðis- og menntamálaráðuneytið gætu í sameiningu staðið að því að tryggja að stöður námslækna í heilsugæslu eða í öðrum greinum heilbrigðisþjónustu yrðu í meira mæli settar niður úti á landi en er í dag.