148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru fjölmörg atriði sem þurfa að falla saman til þess að vel takist til. Við þekkjum vísi að samstarfsverkefnum ráðuneyta á landsbyggðinni, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir líka til, hvað varðar menntun heilbrigðisstarfsfólks. Það hefur verið ánægjulegt. Einn veigamikill þáttur í þessu, eins og við höfum rætt, eru samgöngur, að fólk hafi tryggar samgöngur, veigri sér ekki við því að búa úti á landi vegna þess að þar er teppt um langa hríð. Það er líka óöryggi sem fylgir því að þurfa að fara um langan veg til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Við höfum ekki rætt ýkja mikið um sjúkraflutninga í kvöld, sjúkraflug, sem er lykilþáttur eins og við þekkjum á Vestfjörðum, Austurlandi. Þetta eru atriði sem þarf að huga að.

En þessi áætlun, svo að maður slái nú botninn í umræðuna um hana, er af hinu góða. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa lagt hana hér fram í kvöld. Hér ætla menn að ganga inn í ljósið og hafa mikinn metnað til að gera vel. Þess er óskað að hún gangi öll fram. Ekki verður séð að stóri munurinn verði á Íslandi og himnaríki ef meginmarkmiðin með þessu nást.