148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um húsnæðismál, þann mikilvæga málaflokk sem töluvert mikil vinna hefur verið lögð í undanfarin ár. Í fylgiskjali með þessu plaggi er yfirlýsing um húsnæðismál frá 2015 þar sem stendur:

„Stuðlað verður að því að landsmenn hafi aukið val um búsetuform og búi við meira öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, einkum tekjulágar fjölskyldur.“

Þar eru áherslupunktarnir þessir: Í fyrsta lagi fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða. Í öðru lagi aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingarkostnaðar. Í þriðja lagi stuðningur við almennan leigumarkað. Í fjórða lagi stuðningur við kaup á fyrstu íbúð.

Það hefur gríðarlega margt verið unnið í húsnæðismálum á undanförnum árum, svo að ég vitni til dæmis til þessa samkomulags og út frá því var unnið. En staðan er engu að síður sú að hér vantar húsnæði. Þetta frumvarp er þá liður í því að bæta ástandið.

Markmið frumvarpsins er meðal annars að finna hlutverk stjórnvalda í þjónustu í almannaþágu og húsnæðismarkaði traustan farveg til framtíðar. Lagt er til að stjórnvöld setji fram og kynni heildstæða húsnæðisstefnu með aðkomu Alþingis og efli skýrt hlutverk sveitarfélaga við mótun húsnæðisstefnu, svo að vitnað sé í þetta plagg.

Meginefni frumvarpsins snýr að breyttu hlutverki Íbúðalánasjóðs vegna þeirra verkefna sem honum eru falin við veitingu stofnframlaga á grundvelli þeirra laga.

Hér hafa þingmenn rætt um Íbúðalánasjóð. Ég hlustaði á hv. þm. Óla Björn Kárason ræða um efasemdir sínar um hlutverk hans og þátttöku í húsnæðismarkaðnum. Ég vil þó lýsa yfir ánægju minni með því að hér er lögð áhersla á byggðasjónarmið, stuðning til svæða sem hafa átt erfitt uppdráttar af því við vitum að á ákveðnum svæðum hefur uppbygging ekki átt sér stað og húsnæði jafnvel ekki verið byggt í lengri tíma. Við þurfum að finna leiðir til að styrkja byggðirnar og efla byggð um allt land.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að vanda vel til verka. Við þurfum að leggjast vel yfir þetta plagg hér og ég vona að við berum gætu til að bæta enn ástandið á þessu sviði. Ég þakka ráðherra fyrir að leggja þetta fram.