148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:47]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem farið hafa fram um þetta mál og ákvað að koma hingað upp í lokin til að freista þess að koma inn á einhver af þeim atriðum sem hv. þingmenn tóku upp í þessari umræðu. Ég vil byrja á því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á þegar hún rakti það hlutverk sem Íbúðalánasjóður hefur þegar kemur að stefnumótun og greiningu, en ætlunin er að skerpa frekar á því í þessu frumvarpi. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður kom inn á þar, að það er gert í þessu frumvarpi. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Við horfum til nágrannalanda okkar í því samhengi, líkt og hv. þingmaður vitnaði til í ræðu sinni. Við horfum til dæmis til Noregs og Finnlands þar sem systurstofnanir Íbúðalánasjóðs hafa meðal annars það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar, greina húsnæðismarkaðinn og byggja upp sértæk úrræði sem markaðurinn sinnir ekki sjálfur: úrræði á landsbyggðinni, úrræði fyrir fyrstu kaupendur og úrræði vegna húsnæðismála fanga, svo að dæmi séu tekin. Þar er stofnun sem snýr að húsnæðismálum sem vinnur þétt með stjórnvöldum að málum sem þessu tengjast.

Hv. þingmaður var að velta því fyrir sér hvort þessi greiningarvinna ætti heima hjá Skipulagsstofnun eða Íbúðalánasjóði og spurði hvernig þessu væri háttað á öðrum Norðurlöndum. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á, og varðar þessa þætti, að það er gríðarlega mikilvægt að þau mál sem lúta að húsnæðismálum heyri undir sama ráðuneyti. Það er til að mynda þannig held ég — ég segi held ég, ég ætla ekki alveg að fullyrða það — að ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá er Íslandi eina landið þar sem sá ráðherra sem fer með húsnæðismál fer ekki með byggingarreglugerð og löggjöf um byggingar. Þá er ég ekki að segja að það eigi að flytjast yfir til húsnæðisráðherra, eða þess sem hér stendur, heldur tel ég mjög mikilvægt að allt sem lýtur að þessum málaflokki sé saman. Þetta er eitt af því sem menn hafa verið að skoða og hefur verið skoðað í samstarfi við aðila vinnumarkaðar o.fl., hvort þarna sé ástæða til einhverra breytinga. En það eru þá stærri breytingar sem ekki er á hendi eins ráðherra að gera.

Aðeins var komið inn á húsnæðisáætlanir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, líkt og hv. þingmaður var að velta fyrir sér, að ekki sé um að ræða áætlanir sveitarfélaganna í uppbyggingu á félagslegu húsnæði heldur eiga þetta að vera áætlanir sem lúta að því að sveitarfélögin geri áætlanir sem miði að því að uppfylla húsnæðisþörf sem er til staðar í sveitarfélaginu, að undir séu úthlutanir lóða o.fl. Hugsunin hlýtur að vera sú að til þess að draga úr þeim miklu sveiflum sem eru á húsnæðismarkaði liggi fyrir greinargóðar upplýsingar um það hver húsnæðisþörf þjóðarinnar er á hverju ári tíu ár fram í tímann og samhliða því liggi fyrir áætlanir sveitarfélaganna um að verið sé að úthluta nægilega mörgum lóðum og öðru slíku til að geta uppfyllt þær húsnæðisáætlanir sem gerðar eru. Ef við getum komið þeirri hugsun á að slíkt vinnulag verði við lýði eftir nokkur ár held ég að við getum raunverulega dregið talsvert mikið úr sveiflum á húsnæðismarkaði.

Ég sé það fyrir mér að haldið verði áfram í þá átt að Íbúðalánasjóður hafi það hlutverk að afla upplýsinga og gagna til þess að geta stutt sveitarfélögin við að gera þessar húsnæðisáætlanir til þess að draga síðan úr sveiflum á húsnæðismarkaðnum til lengri tíma og hafa þetta eins og það ætti að vera hjá vitibornu fólki, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Síðan er það hv. þm. Óli Björn Kárason sem fór hér ágætlega yfir sína sýn á þessi mál í ræðustól áðan. Hann var að velta fyrir sér hvort Íbúðalánasjóður væri ekki barn síns tíma, eða nátttröll eins og hann orðaði það. Tekin var talsvert mikil umræða um framtíðarstefnu Íbúðalánasjóðs á þarsíðasta kjörtímabili þegar samþykkt voru lög um almennar íbúðir o.fl. Þá var markað það skref að Íbúðalánasjóður skyldi þróast í auknum mæli út í það að verða eins konar húsnæðisstofnun líkt og þekkist á öðrum Norðurlöndum. Var það meðal annars gert með því að færa umsýslu húsnæðisbóta frá Vinnumálastofnun til Íbúðalánasjóðs og skerpa þar með á hlutverki hans í þessum efnum.

Ég vil því meina að sá framsýni þingheimur sem var á þarsíðasta kjörtímabili hafi tekið þá ákvörðun að Íbúðalánasjóður skyldi þróast áfram í þessa átt, en vissulega hafa sjónarmið hv. þingmanns og annarra skoðanabræðra hans heyrst og gerðu það meðal annars í þeirri umræðu. En þá var þessi stefna mörkuð. Eftir henni vinnum við.

Husbanken í Noregi er í ýmiss konar greiningum og öðru eins og ég kom inn á áðan. Ég held að það sé bara jákvætt að stjórnvöld hafi slíkt tæki sem Íbúðalánasjóður er til að aðstoða sig í húsnæðismálum, hver svo sem er húsnæðismálaráðherra hverju sinni. Það er nú einu sinni svo að einn af stærstu kostnaðarliðum hverrar fjölskyldu eru húsnæðismálin.

Hv. þingmaður kom inn á það að unnar væru prýðisgóðar greiningar í Landsbankanum og hjá fleiri einkaaðilum. En það eru líka aðilar sem eru á lánamarkaði rétt eins og Íbúðalánasjóður og aðrir aðilar, og eru raunar miklu virkari þátttakendur á lánamarkaði en Íbúðalánasjóður er nokkurn tímann. Rétt eins og komið hefur verið inn á hér hafa lánveitingar Íbúðalánasjóðs dregist talsvert mikið saman. Eitt af þeim skrefum sem stigið var á þarsíðasta kjörtímabili var að sjóðurinn markaði sér þá stefnu að vera þar sem markaðurinn gæti ekki séð um hlutina. Eins og til dæmis gagnvart tekjulágum einstaklingum, með aðstoð við fyrstu kaupendur, aðstoð gagnvart landsbyggðinni og á þeim svæðum þar sem er markaðsbrestur.

Ég spyr mig: Hafa þessir stóru bankar, jafnvel þó að þeir séu að einhverju leyti í ríkiseigu í dag, sýnt því svo mikinn áhuga að sinna þessum svæðum. Ég sé það ekki og hef ekki séð það og ekki neinar sérstakar áherslur á það í framtíðaráformum þeirra að sinna lánveitingum, hvort sem er á norðausturhorninu, á Vestfjörðum, á Austfjörðum eða í Húnavatnssýslum, svo að dæmi séu tekin. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að sjóðurinn fái að dafna áfram í þessa átt, en að honum sé sniðinn stakkur eftir vexti og framtíð hans sé mótuð með það að markmiði.

Hv. þingmenn Óli Björn Kárason og Bergþór Ólason ræddu það sín á milli áðan að sjóðurinn væri í gríðarlegum vanda vegna uppgreiðslu. Ég vil ítreka að það er ekki svo. Sjóðurinn hefur verið rekinn með hagnaði ár eftir ár þrátt fyrir að orðið hafi miklar uppgreiðslur. Það var líka framsýni hér í hruninu og eftir hrun að halda sjóðnum inni og koma með ríkisfé inn í hann. Ég held að hann sé okkur gríðarlega mikilvægur og orðið nátttröll, eins og notað var hér áðan, eigi ekki við um sjóðinn í þessu tilfelli. Hann er gríðarlega mikilvægur. Ég vil leyfa mér að segja, vegna þess að klukkan er að verða tólf, að ég vona að það orð hafi verið notað til að lýsa okkur þingmönnum, sem erum hér fram á nótt að ræða þessi mál, en ekki á sjóðnum.

Að þessu sögðu vil ég segja: Ég vonast til þess að velferðarnefnd taki þetta mál til góðrar umfjöllunar og skoðunar. Vonandi getur það orðið hér að lögum áður en þing fer í sumarleyfi í sumar.