150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins tillögu til þingsályktunar sem ég hyggst leggja fram á næstunni um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Þessi tillaga hefur verið flutt áður en ég legg hana nú fram lítið breytta. Staðreyndin er sú að afreksíþróttir hafa skipað veglegan sess meðal landsmanna og afreksíþróttafólkið okkar hefur verið góð landkynning á erlendri grund. Við vitum öll af og tölum gjarnan um mikilvægi þess að börn og ungmenni hafi góðar fyrirmyndir. Fyrirmyndir á þessu sviði eru ómetanlegar fyrir allt forvarnastarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Þessa þætti má eiginlega telja mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr þegar fyrir liggja niðurstöður kannana sem sýna að rúmlega 80% íslenskra ungmenna og barna á aldrinum 11–17 ára hreyfa sig ekki nægilega mikið á degi hverjum. Það hefur ekki eingöngu áhrif á líkamsburði heldur líka þroska heilans.

Síðasta áratug hefur íslenskt afreksfólk vakið athygli á slæmri fjárhags- og réttindastöðu sinni og í desember sl. skrifaði hópur slíks afreksíþróttafólks undir beiðni til menntamálaráðherra og annarra sem málið varðar um að vinna í launa- og réttindamálum afreksfólks hér á landi.

Í þingsályktunartillögunni sem ég mun leggja fram er lagt til að ráðherra verði falið að móta slíka heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum, stefnu sem feli í sér bæði faglegan og fjárhagslegan styrk. Mikilvægt er að stefna verði unnin í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélög til að tryggja að sem flestir taki þátt í vinnunni. Þannig eru mestar líkur á því að svona stefna geti orðið öflugur grunnur að mikilvægum stuðningi við afreksfólkið okkar sem skilar sér síðan í átt að því sem við viljum ná fram fyrir ungmennin okkar, hvatningu til að hreyfa sig og taka þátt í heilbrigðum lífsstíl.

Tillagan er tilbúin og ég vænti þess og óska að þetta mál fái góðan framgang í þinginu. Það væri virkilega í takt við mikilvægi málsins.