150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það er kannski ágætt að dómararnir séu ekki af sama dómstigi en ég segi fyrir mig að hitt hefði verið betra, að það hefði verið algjörlega klippt á það vegna þess að við vitum að það er ofboðslega erfitt fyrir dómara að endurupptaka dóma.

Í sambandi við gjafsóknina finnst mér bara ekki boðlegt að segja: Ja, ef það verður þannig. Við vitum ekki hversu víðáttumikið málið er sem er verið að biðja um endurupptöku á og hversu mikil gagnaöflun þarf að fara fram. Það segir sig sjálft að maður sem hefur nóg fjármagn handa á milli og er auðugur á auðvelt með að gera þetta en einstaklingur sem er kannski búinn að lenda í slysi, hefur ekki verið á vinnumarkaði í fjölda ára, lifir á örorkubótum og tórir bara í sínu umhverfi hefur ekki möguleika á að ráða lögfræðing. Hann hefur ekki möguleika á að gera eitt eða neitt í þessu máli. Þarna er búið að útiloka þann einstakling. Ég tala nú ekki um ef það væri einhver á félagsbótum eða enn lélegri kjörum og atvinnulaus. Það segir sjálft að þessir einstaklingar hafa ekki efni á að fara fyrir Endurupptökudóm þannig að það er verið að útiloka ákveðinn hóp og mér finnst það ekki sanngjarnt.

Ég segi fyrir mitt leyti að þarna eiga að vera að lágmarki nákvæmlega sömu reglurnar og gilda nú þegar um gjafsókn. Þær eru rosalega strangar og ekki margir sem sleppa þar í gegn.