150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

39. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Fyrir henni standa þingmenn þriggja flokka og það eru hv. þingmenn úr mínum flokki, Viðreisn og Samfylkingunni. Við leggjum til að skipuð verði rannsóknarnefnd til að fara yfir það hvernig þessi fjárfestingarleið var notuð, af hverjum og hvort hún hafi verið misnotuð. Þá er sérstakur fókus á það hvort hún hafi verið misnotuð til að komast undan skatti eða stunda peningaþvætti.

Virðulegur forseti. Mikið hefur verið fjallað um þessa fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þá má kannski segja að miðillinn Kjarninn hafi farið þar fremstur í flokki en þar er að finna mjög ítarlega og greinargóða umfjöllun um þá þætti sem vissulega vekja upp stórar og alvarlegar spurningar um hvernig þessi leið var notuð þau ár sem hún var í gildi en leiðin fól í sér að einstaklingar eða stöndugir aðilar skulum við segja, því að eitthvað þurfti maður að eiga af erlendum gjaldeyri til þess geta tekið þátt, gátu flutt inn peninga til Íslands, gjaldeyri til Íslands og fengið af því virðisauka ef þeir peningar voru nýttir til að fjárfesta á Íslandi. Oft var það nú ekki merkilegri fjárfesting en svo að einstaklingar fjárfestu í hlutabréfum eða skuldabréfum í sínu eigin fyrirtæki og gátu þar af leiðandi leyft virðisaukningu sinni að vaxa smá.

Það sem einna helst hefur sætt gagnrýni er að Seðlabankinn hefur neitað að upplýsa hvaða aðilar þetta eru sem komu með fé inn um þessa leið. Þó hefur fjölmiðlum tekist að finna með mjög mikilli vinnu nöfn nokkurra einstaklinga sem notuðu þá leið og það eru, hvað eigum við að segja, góðkunningjar okkar úr hruninu sem skildu jafnvel eftir tóm þrotabú fyrirtækja eða hurfu með eitthvað, það hvarf alla vega eitthvað af sparifénu hjá ýmsum í kringum viðskipti þeirra.

Kveikjan að því að við lögðum fram þetta mál aftur, vegna þess að það er endurflutt, eða það sem var hvatningin fyrir mig a.m.k. til að leggja af stað aftur í vinnu við að uppfæra þá þingsályktunartillögu sem við lögðum fram á 146. þingi voru fréttir af því að á meðal annarra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina svokölluðu var einmitt félag í eigu Samherja sem er orðið nokkuð frægt þessa dagana. Í umfjöllun Kjarnans frá því fyrir mjög stuttu síðan má finna mjög greinargóða úttekt á því hvernig þessi fjárfestingarleið var nýtt af Samherja. Þar stendur í leiðara, með leyfi forseta:

„Á meðal annarra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina var félag í eigu Samherja. Um er að ræða félagið Esju Seafood á Kýpur, sem tók við hagnaði af starfsemi Samherja í Namibíu. Esja Seafood lánaði öðru félagið Samherja, Kaldbaki, um 2,4 milljarða kr. árið 2012 í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Í Stundinni á þriðjudag var greint frá því að Kaldbakur hafi m.a. lánað enn öðru félagi Samherja, Kattanefi ehf., 300 millj. kr. til að fjárfesta í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Það félag var svo selt til Ramses II ehf., félags í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, árið 2017, á 325 millj. kr.“

Samherji lánaði sem sagt Eyþóri fyrir kaupunum en hann hefur ekki þurft að borga þetta lán til baka og skilst mér að það hafi bara verið fellt niður.

Rannsóknarnefndin myndi mögulega ná yfir þetta líka og, eins og ég nefndi áðan, nokkra aðra góðkunningja hrunsins vegna þess að það situr enn þá sterkt í fólki að hér hafi verið sprengd upp risavaxin bóla með blekkingaleikjum og fléttum og öðrum fjárglæfrasóðaskap. Margir hafi sloppið með peninginn á Panama í aflandseyjar og noti þá jafnvel enn þá stundum í gegnum svissnesku kreditkortin sín en hafi líka fengið að flytja aftur inn verulega fjármuni í gegnum Seðlabanka Íslands, fengið af þeim afslátt, þ.e. gengisafslátt, og notað þá til að kaupa rústirnar af húsunum sem þeir kveiktu í, svona myndrænt séð.

Mér finnst mikilvægt að þetta verði gert upp og þess vegna leggjum við til rannsóknarnefnd sem hefur mjög víðtækar heimildir, rannsóknarnefnd sem skipuð er af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta væri rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að gera grein fyrir því hvaða fjármagn var flutt til landsins með þessari fjárfestingarleið og hvaðan það kom, hvaða einstaklingar voru skráðir fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins eða hvaða félög og hvernig eignarhaldi þeirra var háttað — hér myndi ég vilja bæta inn raunverulegu eignarhald þeirra — hvernig fénu sem fært var inn til landsins var varið, þ.e. til hvaða fjárfestinga það var notað og hvaða áhrif þær fjárfestingar hafa haft á íslenskt efnahagslíf, hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna þessa og þá hversu mikið tapið var, hvort samþykkt tilboð í útboðum fjárfestingarleiðarinnar kunni í einhverjum tilvikum að hafa brotið gegn skilmálum leiðarinnar og hvort fjárfestingarleiðin kunni að hafa verið notuð til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins til að stunda peningaþvætti eða hún verið misnotuð með öðrum hætti. Við óskum þess að nefndin skili niðurstöðu sinni svo fljótt sem auðið er en eigi síðar en 1. október 2020.

Þetta eru allt mikilvæg atriði, sér í lagi þegar við vitum að Seðlabankinn tilkynnti t.d. ekki grunsamlegar millifærslur til viðeigandi aðila, leit ekki á það sem skyldu sína. Það er mögulega ein af ástæðunum fyrir því að við eigum vel heima á þessum gráa lista. Þar að auki voru að því er virtist engar sérstakar hömlur á því að það yrði skoðað hvort fólk væri að koma hingað með illa fengið fé til að kaupa eignir sem það hafði jafnvel stefnt í þrot á útsöluverði. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að kanna. Þetta finnst mér mikið réttlætismál. Þetta er ástæðan fyrir því að Píratar mæla fyrir þessu máli.