150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

áfengislög.

48. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Frelsið er gott. Það er gott að vera frjáls í frjálsu landi og mega gera hluti sem ekki eru bannaðir. Það er mjög slæmt að hlutir séu bannaðir sem eiga ekki að vera bannaðir. Það finnst mér alla vega vegna þess að ég er í Pírötum og við Píratar trúum á frelsið. Talandi um frelsi mæli ég hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum. Nánar tiltekið er það þannig í núverandi áfengislögum að það er bannað að brugga áfengi heima hjá sér til einkaneyslu. Þetta er annað svona frelsismál sem ég hygg að frekar margir í samfélaginu séu hreinlega ekki meðvitaðir um vegna atriða sem ég fer yfir á eftir.

Aftur vantar Sjálfstæðisflokkinn á þetta frelsismál, því miður, en ég bind vonir við að hann fari nú að iðka það sem hann predikar jafnan um einstaklingsfrelsi í staðinn fyrir að vera bara að tuða yfir því að allir aðrir séu svo vinstri sinnaðir. Hér er lagt til að fólki verði heimilt að brugga heima hjá sér með gerjun til einkaneyslu. Í fyrri útgáfu frumvarpsins var lagt til að heimilt yrði að brugga alfarið og án tillits til aðferðar. En eftir umsagnir og meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar á seinasta þingi er hér lagt til að áfram verði óheimilt að framleiða áfengi til einkaneyslu með eimingu. Ástæðan er sú, að sögn umsagnaraðila sem þekkja vel til, að það er hættulegt að gera það nema til staðar sé sérstaklega góð og mikil þekking á því ferli. En gerjun sem er t.d. notuð til að brugga bjór — það á fólk að geta gert án þess að fara sér eða öðrum á heimilinu að voða.

Á síðustu árum, leyfi ég mér að fullyrða, hefur orðið sprenging í fjölda tegunda af íslenskum bjór og er svo komið að ferðamenn eru farnir að verða forvitnir um íslenska bjórmenningu og bjórframleiðslu það sem er kallað á ensku „microbrewery“ — ég man ekki íslenska orðið í augnablikinu, virðulegur forseti. En það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að þegar slíkur bjór kemur fram má í raun fastlega gera ráð fyrir því að þeir aðilar sem brugguðu bjórinn upprunalega, áður en þeir urðu fyrirtæki og fengu leyfi og slíkt, hafi verið að brjóta áfengislög með því að brugga heima hjá sér. Það er jú þannig sem fólk öðlast reynslu af því að brugga bjór, þessar fjölmörgu tegundir sem eru til á Íslandi.

Sömuleiðis má geta þess að á sínum tíma var á Klambratúni haldin einhvers konar bjórkeppni eða bjórsýning eða eitthvað því um líkt. Þar komu saman áhugamenn um bjórbruggun og töluðu í beinni útsendingu í fréttum um það sem þar var í gangi. Þarna var verið að bera saman mismunandi heimabruggaðar bjórtegundir. Formaður þessa hóps stóð þarna í viðtali og var spurður af fréttamanni hvort þetta væri ekki bannað. Það virtist koma formanninum svolítið í opna skjöldu og hann sagði: Jú, sennilega er þetta harðbannað og það þarf að laga það. Ég tek undir með þeim ágæta formanni. En það undirstrikar líka að það er ekki þannig að á Íslandi sé almenningur að kalla eftir því að þessu banni sé framfylgt. Það er ekki þannig. Þessi sömu samtök, Fágun, hafa sent inn umsögn til Alþingis um frumvarp um að heimila áfengissölu einkaaðila. Þeir hafa mætt fyrir allsherjar- og menntamálanefnd til að kynna sjónarmið sín. Þetta er hópur sem opinberlega snýst um það eitt að brugga heima hjá sér, snýst um það eitt að fremja lögbrot sem sex ára fangelsisrefsing liggur við. Mér þykir algjörlega ljóst að það eru ekki væntingar samfélagsins, og vissulega ekki þessa hóps, að þeim lögum sé framfylgt. Slíkar aðstæður búa til ákveðna áhættu fyrir hóp sem tekur þátt í athæfi sem er stranglega bannað en er samt sem áður heimilað í reynd af yfirvöldum og samfélaginu. Þessir einstaklingar liggja alltaf illa ef yfirvöld komast í svo mikið sem vont skap og ákveða að fara að framfylgja þessum lögum. Viðkomandi aðilar eru búnir að brjóta lögin árum saman og eiga yfir höfði sér sex ára fangelsisvist ef það eina gerist að lögreglustjóra einhvers staðar langi að framfylgja þessum lögum. Réttarstaða þessara einstaklinga er hábölvanleg. Þetta eru sömu einstaklingar og hafa stuðlað að því að ferðamenn hafa áhuga á vaxandi bjórmenningu á Íslandi og sérþekkingu ýmissa íslenskra aðila á þeirri góðu iðju að framleiða bjór. Þetta snýst því ekki bara um að mér persónulega finnist mikilvægt að fólk geti bruggað heima hjá sér, þetta snýst líka um réttaröryggi borgaranna sem stunda athæfið áreitislaust enn sem komið er um.

Ég hygg að ég hafi farið yfir þetta í öllum meginatriðum, ég kalla enn og aftur eftir því að þeir stjórnmálamenn hér sem gaspra hæst um frelsið í kosningabaráttu styðji þetta mál og önnur frelsismál Pírata. En þetta mál er reyndar líka lagt fram af þingmönnum utan þess flokks, þar á meðal þingmönnum Viðreisnar og Flokks fólksins. Þeir sem flytja þetta frumvarp eru hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson og Inga Sæland.

Ég vil spyrja forseta hvort það liggi eitthvað fyrir hvert þingið telur best að senda frumvarpið.

(Forseti (GBr): Hér er lagt til að frumvarpið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar.)

Prýðilegt, ég styð það. Þá legg ég til að frumvarpið gangi til 2. umr. og til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.