150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega, eins og mátti vænta, áhugavert. Þegar talað er um eignaupptöku vil ég hvetja hv. þingmann til að fara af nákvæmni með hugtök. Hugtakið eignarnám er til, ég veit ekki hvort hann er að hugsa um það. Merk doktorsritgerð var skrifuð á síðustu öld af Gauki Jörundssyni sem fjallar um eignarnám og það er innsti kjarninn í eignarrétti hvaða heimildir eru uppi varðandi ráðstöfun eigna og hvaða heimildir opinberir aðilar hafa til að leggja hald á eignir með þeim hætti sem kallað er eignarnám. Ég myndi bara hvetja til þess, þegar verið er að fjalla um þessa þætti, að ekki sé fjallað af neinu gáleysi og alls ekki á vettvangi Alþingis um þessa hluti. Þetta eru stóralvarleg mál og um þetta eru til lærðar ritsmíðar og dómaframkvæmd þar sem menn átta sig á því hvernig hlutirnir gerast í hinum fínni blæbrigðum.