151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga.

478. mál
[15:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á íslenskt efnahagslíf og samfélag. Markmið þessa frumvarps má flokka í þrjá þætti:

Í fyrsta lagi legg ég til lagabreytingar sem hafa það markmið að auka svigrúm sveitarfélaga til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf og búskap hins opinbera. Annars vegar er framlengt það tímabil sem sveitarfélögum er heimilt að víkja frá jafnvægisreglu og skuldareglu í fjármálum sveitarfélaga, til ársins 2025 í stað 2022. Um eru að ræða þau skilyrði 64. gr. sveitarstjórnarlaga að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum og að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.

Meðfram þessu úrræði legg ég til breytingar á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga sem veitir sjóðnum rýmri heimildir til útlána til sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja á vegum sveitarfélaga vegna rekstrarvanda þeirra.

Með þessum breytingum er sveitarfélögum veitt aukið svigrúm til að mæta þeim áskorunum sem íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir, m.a. við að halda uppi atvinnustigi í landinu og tryggja grunnþjónustu. Er breytingin í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 30. desember 2020 um markmið og afkomu sveitarfélaga árin 2021–2025 og breytingar á lögum um opinber fjármál sem veittu fjármálaráðherra heimild til að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera árin 2023–2025.

Í öðru lagi er frumvarpinu ætlað að auðvelda sveitarfélögum að koma til móts við rekstraraðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna faraldursins þannig að sveitarfélög geti sýnt sveigjanleika við innheimtu. Ljóst er að mörg fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu, hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna fækkunar ferðamanna og annarra beinna og óbeinna áhrifa heimsfaraldursins. Í frumvarpinu er lagt til að lögveð sem fylgir fasteignaskatti sem lagður er á atvinnuhúsnæði á árunum 2020–2022 haldi gildi sínu í fjögur ár í stað tveggja. Er um að ræða sambærilegt úrræði og gripið var til árið 2009 í kjölfar efnahagshrunsins með lögum nr. 6/2009.

Þá er lagt til að veita sveitarfélögum heimild til að lækka eða fella niður dráttarvexti á álagða fasteignaskatta vegna atvinnuhúsnæðis á árunum 2020–2022. Með breytingunni skapast aukið svigrúm fyrir sveitarfélög til að semja við rekstraraðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum um skil á fasteignaskatti, án þess að sveitarfélagið eigi í hættu á að lögveðsrétturinn glatist. Gert er ráð fyrir að ákvörðun sveitarstjórnar um lækkun eða niðurfellingu dráttarvaxta sé háð þeim skilyrðum að gjaldandi fasteignaskatta eigi við rekstrarerfiðleika að stríða vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innan lands og á heimsvísu vegna kórónuveirufaraldursins.

Í þriðja lagi er markmið frumvarpsins að tryggja starfhæfi sveitarfélaga og auðvelda ákvarðanatöku við óvenjulegar aðstæður. Með lögum nr. 18/2020 var bráðabirgðaákvæði bætt við sveitarstjórnarlög sem felur í sér að ráðherra sveitarstjórnarmála getur veitt sveitarstjórnum heimild til að víkja frá ákvæðum í tilteknum köflum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands. Gildistími ákvæðisins var til 31. desember 2020 og í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar var lagt til ákvæðið yrði endurskoðað að þeim tíma liðnum í samráði við sveitarfélögin sjálf og að fenginni reynslu af beitingu þeirra heimilda sem lagðar voru til. Hér er lagt til að sambærilegt ákvæði verði lögfest með varanlegum hætti en mikilvægt er að sveitarstjórnir geti brugðist skjótt við ef neyðarástand kemur upp, svo sem af völdum náttúruhamfara eða farsótta. Kunna aðstæður þá að vera þannig að sveitarstjórn eða nefndir á vegum hennar eigi tímabundið erfitt með að framfylgja formreglum sveitarstjórnarlaga sem almennt ber að fara eftir við stjórn sveitarfélags. Ljóst er að slíkt ástand kann að tefja eðlilega og nauðsynlega stjórnsýslu sveitarfélags auk þess sem óvissa kann að myndast um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnar ef vikið er frá formreglum við slíkar aðstæður. Til að tryggja að starfsemi sveitarfélagsins haldi áfram eins eðlilega og unnt er þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður kann að vera nægilegt að sveitarstjórn verði heimilað að víkja frá einstökum ákvæðum sveitarstjórnarlaga meðan slíkt ástand varir til að tryggja eða auðvelda starfhæfi hennar. Er hér m.a. lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að víkja frá skilyrðum um fyrirkomulag sveitarstjórnarfunda og um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna.

Virðulegi forseti. Ég tel að þær lagabreytingar sem hér hafa verið kynntar séu til þess fallnar að auka svigrúm sveitarfélaga og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á sveitarfélögin og tel ég rétt að breytingarnar komi til framkvæmda sem fyrst.

Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.