152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni og ég vil líka benda á að núna þegar við horfum upp á stóraukna verðbólgu og hækkandi vexti þá er varla komið eitt einasta stjórnarmál hingað inn í þingið sem lýtur með beinum hætti að heimilisbókhaldi fólks og fjölskyldna í landinu, að húsnæðismálum, að kjaramálum, að lífskjörum almennt. Ráðherrar tjá sig út og suður, þeir eru með digurbarkalegar yfirlýsingar um hitt og þetta, m.a. hvað þurfi að gera til að styðja betur við tekjulág og skuldug heimili, en svo kemur bara ekkert slíkt hérna inn í þingið.

Nú er það hins vegar þannig að Samfylkingin og fleiri flokkar í stjórnarandstöðu hafa lagt fram fjölda þingmála sem lúta að nákvæmlega þessu, lífskjörum fólks, húsnæðismálum, skuldum heimilanna. Við erum meira að segja með mál sem ráðherrar hafa talað fyrir, eins og varðandi húsnæðisliðinn í vísitölunni. Það er hitt og þetta sem væri hægt að taka fyrir og ég vil leggja það til við forseta Alþingis að á dagskránni næstu vikurnar verði forgangsraðað þeim málum sem lúta að þessu á þessum fordæmalausu tímum.