152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:12]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er að fá „déjà vu“ frá því hver staðan var hér fyrir tveimur árum. Nú hrannast upp fordæmin frá útlöndum. Nú rétt í þessu voru Svíar að kynna mótvægisaðgerðir fyrir heimilin — Noregur, Bretland, Frakkland. Við vorum í nákvæmlega sömu stöðu fyrir tveimur árum síðan þar sem hvert landið á fætur öðru var á undan okkur í að grípa til mótvægisaðgerða vegna erfiðleika í efnahagslífinu og aftur ætlar ríkisstjórnin að vera eftir á. Það er algjör pólitísk ákvörðunarfælni til staðar. Það er talað um hitt og þetta en ekkert mál kemur hér inn í þingið og svo er ekki einu sinni vilji til að styðja þau þingmál sem koma vel útfærð frá stjórnarandstöðunni þegar tekið er mið af nákvæmlega þeim aðgerðum sem verið er að ráðast í í löndunum í kringum okkur. Erum við að fara að horfa upp á það að eftir tvo, þrjá, fjóra, kannski níu mánuði, eins og fyrir tveimur árum síðan, komi inn þingmál og þá komi aðgerðir þegar verðbólgan er komin hérna upp úr öllu valdi, þegar kjarasamningar blasa við? Hvar eru þingmálin frá ríkisstjórninni sem snúa að stöðunni í dag?