152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að gera athugasemd við framgöngu viðskiptaráðherra Lilju Alfreðsdóttur vegna framkomu hennar við þingmann Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, sem kemur hér upp og nýtir sér þann dagskrárlið sem heitir óundirbúnar fyrirspurnir til að koma með fullkomlega málefnalega og eðlilega fyrirspurn til ráðherra. Ráðherra er ófær um að svara þeirri spurningu, að því er virðist vegna persónulegrar óvildar í garð formanns Viðreisnar, óvildar sem ráðherra verður sjálf að svara fyrir, ef hún treystir sér til, hvaðan er sprottin. En þessi framkoma hér í þingsal þegar verið er að ræða málefni sem varðar þing og þjóð er algerlega óboðleg.

Nú er það svo að sá ráðherra sem hér um ræðir er ekki beint í fararbroddi þeirra sem hafa lyft veg og virðingu Alþingis sem mest. En, frú forseti, það eru einhver takmörk og ég hefði gjarnan viljað sjá forseta grípa inn í þessa óhæfu áðan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)