152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:13]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina og hv. þingmönnum sem hafa talað hérna. Rannsóknir sýna okkur að andleg vanlíðan barna og ungmenna hefur aukist á undanförnum árum, líðan sem fór síst batnandi síðastliðin tvö ár. Þá sættu börn hér ítrekuðum takmörkunum af hálfu stjórnvalda og endurtekinni einangrun, jafnvel nokkrar vikur í senn. Ákvarðanir um skemmtanahald voru teknar til að tryggja að sinfóníutónleikar gætu farið fram en skemmtanalífi yngri kynslóðanna var fórnað í þágu almannahagsmuna og það þrátt fyrir þá vitneskju sem lá fyrir lengst af um að börnum stafaði lítil hætta af Covid. Á þessum tveimur árum fjölgaði tilkynningum til barnaverndaryfirvalda mikið. Það er því jákvætt að við ræðum þessi mál sérstaklega hér í dag. Tvö ár eru langur tími í lífi barna og nú þegar rykið er að setjast er ég ekki viss um að allar þessar ákvarðanir eldist vel.

En það er annað sem mig langar að beina athygli hæstv. ráðherra að og það er bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu með fjarheilbrigðisþjónustu. Hún var rædd í þinginu á dögunum en nú þegar margar einkareknar stofur í geðheilbrigðisþjónustu nýta sér þessa tækni með góðum árangri má ég til með að spyrja af hverju hið opinbera nýtir ekki þetta úrræði. Af hverju gengur hinu opinbera svona mun hægar að brjóta niður veggi og múra? Við búum hér yfir íslenskri tækni sem hefur öll tilskilin leyfi en engin opinber þjónustustofnun nýtir hana. Getur verið að gamaldags hugsun komi í veg fyrir skynsamlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu? Með því að bjóða bæði upp á stað- og fjarþjónustu um allt land er hægt að stytta biðtíma og biðlista, nýta tíma heilbrigðisstarfsfólks betur og byggja upp sterkt teymi stuðnings og aðstoðar.