152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:23]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum og ekki síst á meðan heimsfaraldri stóð hefur mikið verið fjallað um geðheilbrigðisþjónustu í fjölmiðlum og á Alþingi. Lítið virðist þó hafa gerst í þeim málum. Heimsfaraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á geðheilbrigði. Sjálfsvíg hafa aukist á síðustu tveimur árum en árið 2020 voru sjálfsvíg 47 miðað við 39 árið áður. Tilkynningar um heimilisofbeldi hafa aukist og ekki var gert ráð fyrir geðsviði á nýjum Landspítala en núverandi húsakostur er orðinn úreltur. Svo hefur biðlisti lengst hjá SÁÁ sem aldrei fyrr. Eins og staðan er núna getur biðtími eftir geðheilbrigðisaðstoð hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varað frá nokkrum vikum upp í ár. Biðtími eftir þjónustu geðheilbrigðisteymis getur verið frá nokkrum vikum upp í fimm, sex mánuði og biðtími hjá sálfræðingum á heilsugæslustöðvum getur verið misjafn, frá nokkrum vikum og sums staðar upp í ár. Varla getur þetta verið heilsusamlegt, hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er staðreynd að það vantar sálfræðinga og geðlækna hér á landi. Framhaldið á þessari starfsemi virðist vera óráðið og enginn virðist vita hvernig málin eigi að leysast. Við heyrum ítrekað sögur frá fólki um að mannekla, plássleysi o.s.frv. geti í alvarlegum tilfellum leitt af sér sjálfsvíg. Það er nokkuð ljóst að staðan er þung og ekkert hefur verið lagt í að fjölga sálfræðingum og geðlæknum. Í kosningabaráttunni voru allir flokkar sammála um að þessi málaflokkur þyrfti að fá fjármagn og lofuðu allir flokkar upp í ermina á sér. (Forseti hringir.) Núverandi ríkisstjórn hefur ekki staðið við gefin kosningaloforð í þessum málaflokki.