152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:25]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að setja málefni geðheilbrigðismála á dagskrá hér á hinu háa Alþingi. Það verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að um langt árabil hafa geðheilbrigðismál og geðheilbrigðisþjónusta hér á landi verið undirfjármögnuð. Umfang málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins er áætlað u.þ.b. 30% en hann fær einungis 12% af fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ég gæti kannski bara endað ræðu mína hér af því að þessi staðreynd segir okkur allt um það hvernig forgangsröðunin er í heilbrigðiskerfinu. Ég hygg að við stöndum frammi fyrir því, hvort sem við tilheyrum stjórnarmeirihluta eða minni hluta, að horfast í augu við að það þurfi að stokka upp í ríkisfjármálunum, að það þurfi að endurforgangsraða í opinberum fjármálum og gera áætlun til stutts og langs tíma sem tryggir geðheilbrigðisþjónustu við fólk á öllum aldri.

Mig langar líka að benda á aðra staðreynd og hún er sú að allt of margir sem fá ekki geðheilbrigðisþjónustu enda á örorku þannig að við erum oft að kippa fótunum undan ungu fólki ekki síst með því að veita því ekki nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Og hvað gerum við þá? Þá sitjum við uppi með fólk sem fær ekki að nýta starfsgetu sína, fær ekki heilbrigðisþjónustu og er í rauninni eiginlega dæmt úr leik stærstan hluta ævinnar. Besta ráðið fyrir góða heilsu, lýðheilsu og geðheilsu þjóðarinnar er að tryggja jöfnuð, koma í veg fyrir fátækt barna og ungmenna og tryggja aðgengi allra að fyrsta flokks geðheilbrigðisþjónustu.