152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:34]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar við sjáum fyrir endann á heimsfaraldrinum leiðir maður hugann að því að þótt veiran láti undan síga þá munum við lifa áfram við afleiðingar plágunnar á ýmsum sviðum. Við verðum að vita hverjar þær eru. Staðan á vinnumarkaði er áhyggjuefni. Það er erfitt að fá fólk til starfa. Í morgun voru 1.116 laus störf á alfred.is. Fyrir Covid voru laus störf inni á sama vef að meðaltali um 300 og þótti mikið. Atvinnurekendur um land allt vantar tilfinnanlega starfsfólk og það bendir margt til þess að fólk sé hikandi og kvíðið að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir fjarveru þaðan í Covid. Þetta er veruleikinn sem við okkur blasir og við þurfum að horfast í augu við það hvernig við ætlum að koma fólki aftur í virkni. Það er verkefnið næstu mánuði. Við vitum líka að það er fylgni á milli andlegar vanlíðunar og þess að vera virkur á vinnumarkaði. Virkni á vinnumarkaði skiptir gríðarlega miklu máli hvað geðheilsu varðar og því held ég að við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma fólki út á vinnumarkaðinn. Til þess eigum við mörg úrræði, m.a. VIRK. En ég velti því oft fyrir mér hvort við séum nógu samhæfð.

Andlegri heilsu hrakaði í faraldrinum. Því tel ég löngu tímabært að opna sérstaka geðheilsumiðstöð til að styrkja allt umhverfi og aðhald geðheilbrigðisþjónustu hér á landi þar sem aðgerðir í geðheilsumálum yrðu samhæfðar. Við verðum að gera allt til að hlúa betur að geðheilsu fólks og þá sérstaklega ungs fólks.