152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

grænþvottur.

449. mál
[18:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessa ágætu skýrslubeiðni. Eftir því sem fleiri átta sig á nauðsyn róttækra aðgerða í loftslagsmálum þá, hvað eigum við að segja, fara óprúttnir aðilar á markaði að sjá færi í því að setja grænan merkimiða á eitthvað sem er kannski bara alls ekki grænt. Þess vegna er mjög mikilvægt að neytendur hafi í höndum þau tæki sem þarf til að sjá í gegnum þann grænþvott. Þess vegna er mjög mikilvægt að stíga þetta skref.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni að pólitíski grænþvotturinn er kannski ekki síður alvarlegur og jafnvel enn alvarlegri af því að þar teiknast upp stóru línurnar fjögur ár í senn. Þegar tveir flokkar í ríkisstjórn áttuðu sig svo á því að þeir gætu tekið gömlu stóriðjustefnuna sína og vafið hana inn í grænan álpappír og selt hana sem einhverja nýja stefnu, ja, þá hefði þurft eitthvað. Nei heyrðu, við höfðum reyndar eitthvað. Við höfðum sólina frá ungum umhverfissinnum sem sýndi svart á hvítu að einn af núverandi stjórnarflokkum var með ásættanlega stefnu í þessum málum. (Forseti hringir.) Tveir voru með óásættanlega stefnu. (Forseti hringir.) Það nægir kannski ekki að vita hverjir eru með græna vöru eða græna stefnu eða hvað það er heldur líka að muna að það skiptir máli hverjum við stjórnum með eftir kosningar.