152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[18:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Ég held að kjarninn í þessu sé að finna þau málefnalegu rök sem hv. þingmaður kom inn á, setja fram málefnaleg rök fyrir því að þetta frumvarp eigi ekki rétt á sér, finna því lagastoð sem lýst er í skýrslu umboðsmanns. Ég er bara staddur þar. En það kann að vera að ég sé á rangri vegferð í því og þá viðurkenni ég það bara en ég horfi þannig á málið. Mér finnst bara rétt að Alþingi fái að fjalla um það. Mér fyndist ekkert að því þó að hv. velferðarnefnd myndi skoða málið út frá þeim rökum, málefnalegum rökum fyrir því að setja málið í annað ferli eða þeirri hugmyndafræði að banna bara með öllu beitingu nauðungar og hafa engan umbúnað um það þegar að þær aðstæður koma upp sem lýst er. (Forseti hringir.) En ég legg áherslu á að hv. velferðarnefnd taki þannig málið til sín og þannig er það lagt fram hérna.