152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[20:00]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið að skoða þetta og mér finnst pínu eins og ég sé að horfa á eitthvað sem gæti hafi verið samið fyrir svona 30 árum. Ég skil ekki alveg, bíddu, erum við hér núna? Er þetta það sem er að gerast núna? Erum við að reyna hafa kerfið okkar svona? Við erum ekki að reyna að vaxa út úr því. Við erum ekki að reyna að komast í eitthvert annað, nýtt og betra. Við erum ekki að taka tillit til þess hvaða áhrif það hefur á einstakling að vera beittur nauðung. Hvar er það tekið til? Hvar er rætt um langtímaáhrif á fólk sem er beitt nauðung og hvernig við getum farið aðrar leiðir? En það sem mér fannst líka svolítið merkilegt er að það er verið að tala um að hafa eftirlit með póst- og bréfsendingum. Af hverju? Af hverju er verið að hafa eftirlit með þessu? Hvað er hættulegt við þetta? Hvað er fólkið að gera? Aðgangur sjúklings að eigum sínum er takmarkaður og fjarlægður gegn vilja hans. Ókei, þetta er sem sagt eitthvað sem við teljum að sé nauðsynlegt að gera á heilbrigðisstofnunum okkar.

Þetta skýtur mjög skökku við þar sem við erum að þvinga einn hóp til athafna daglegs lífs en annan hóp, fólk með geðsjúkdóma, erum við ekki einu sinni að fylgja eftir í meðferð, þau sem leita á bráðamóttöku geðdeildar vegna sjálfsvígsvanda. Við erum ekki einu sinni að spá í þau en ef þú ert búinn að leggjast nauðugur inn á geðdeildir Kleppsspítala þá erum við að neyða fólk til þess að fara í bað. Hvað er í gangi? Það er ýmist í ökkla eða eyra. Annaðhvort ertu hér og hlýðir því sem við segjum eða (Forseti hringir.) þú ert ekki hér og við ætlum ekki að fylgjast með þér eða (Forseti hringir.) spá neitt í hvað þú ert að fara að gera.