Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[15:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum hér með mál sem ýmislegt jákvætt er í og er ætlað að bæta rétt leigjenda á markaði, mál sem er löngu tímabært og búið að vinna töluvert lengi að. Ég get eiginlega ekki orða bundist þegar ég skoða þennan bækling sem breytingartillögur meiri hluta velferðarnefndar eru, breytingartillögur sem komu fram í gærkvöldi og er enn þá verið að breyta. Þegar maður rennir hratt yfir þetta þá er þetta meira heldur en sjálft málið. Að standa síðan hér og vera að gera okkur það að greiða atkvæði og klára málið núna — ég verð að segja að ég er greinilega bara eftirbátur hér hvað varðar meðalgreind í salnum, ég treysti mér ekki til þess. Eins mikið og ég myndi vilja styðja mál þar sem sannarlega væri verið að bæta rétt leigjenda á markaði þá er þessi umbúnaður þess eðlis að ég sé mér ekki fært annað en að sitja hjá ef á að afgreiða málið í þingsal núna.