Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[15:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð í grunninn þá hugmyndafræði sem er verið að vinna eftir í þessu frumvarpi. Ég styð að verið sé að auka gagnsæi og verið að gera ungu fólki t.d. kleift að nálgast upplýsingar sem geta hjálpað því að átta sig á hver hin raunverulega húsaleiga ætti að vera, svona sirka, hjálpa ungu fólki sem er að koma inn á markaðinn að láta ekki t.d. okra á sér. Þess vegna hef ég tekið þátt í þessari vinnu í nefndinni með jákvæðu hugarfari. Aftur á móti leið mér ekkert mjög vel þegar ég sá þessa breytingartillögu sem verið var að gera í gærkvöldi, sérstaklega þá sem er að fara að undanskilja stóran hluta þeirra aðila sem eru að leigja á markaði, undanskilja þá frá því að skrá eignir í þennan húsaleigugrunn sem á að vera verkefni til að nálgast upplýsingar þannig að mér líður ekki vel yfir þessu núna. Ég held að ég styðji frumvarpið en ég mun greiða atkvæði gegn þessari breytingu sem undanskilur stóran hluta leigusala á markaði.