154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[19:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar og tek undir mikilvægi þess að þetta mál sé hér fram komið því að þetta snýst um það að tryggja öryggi íbúa hér á landi. Eins snýst þetta um að tryggja öryggi björgunaraðila sem ráðast inn í brennandi hús, jafnvel til að bjarga mannslífum og oft og tíðum er það í húsnæði þar sem brunavörnum er ekki nægilega vel sinnt og jafnvel húsnæði sem hefur verið breytt.

Varðandi tímann og hvort þetta mál sé komið of seint fram vil ég í rauninni einfaldlega vísa til þess að mál sem þessi taka tíma. En auðvitað er það þannig að þegar einn einstaklingur hefur látið lífið af völdum eldsvoða þá er það bara einu mannslífi og mikið. Það er verið að bregðast við til þess að bæta úrræði fyrir einstaklinga sem búa í m.a. atvinnuhúsnæði, og fyrir börn sem búa í atvinnuhúsnæði, og er afar mikilvægt að bregðast við. Hvort þetta leysi þennan undirliggjandi vanda núna þá snýst þetta frumvarp eingöngu um það að tryggja öryggi þeirra einstaklinga sem búa í óviðunandi húsnæði og vísa til ábyrgðar þeirra einstaklinga sem eiga húsnæðið til þess að sinna nægilega brunavörnum, sem er afar brýnt.