154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Sum mál ætti ekki að þurfa að gera lögum. Sum mál eru að bregðast við ástandi sem ekki ætti að vera til staðar. Þetta er eitt af þeim málum. Ég held að mörg hafi vaknað upp við vondan draum í júní 2020 þegar eldur kviknaði hér rétt við þinghúsið, á Bræðraborgarstíg, svo nálægt þinghúsinu að þegar við vorum hér í húsi þá fundum við brunalyktina, við heyrðum í sírenunum. Við vorum í návígi við eldsvoða þar sem þrír einstaklingar létu lífið, þrír einstaklingar sem voru óskráðir í húsið, hús sem var illa búið og troðið upp að rjáfri af innflytjendum sem voru að greiða of háa leigu fyrir lélegt og hættulegt húsnæði og voru í lífshættu hvern dag sem þau bjuggu í þessu húsi vegna þess að húsinu hafði verið breytt í óleyfi. Það var orðið að dauðagildru.

Mig langar kannski aðeins, forseti — því að þessi atburður situr dálítið í mér, ég held að hann sitji dálítið í okkur öllum sem vorum hérna í nágrenninu þegar þetta átti sér stað — að lesa hvernig Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lýsir búsetu í eigninni á þessum örlagaríka degi, með leyfi forseta:

„Í heildina bjuggu yfir 21 einstaklingur í húsinu þegar eldsvoðinn átti sé stað þann 25. júní 2020. Þar af voru 5 heima í herbergjum sínum á rishæðinni og 3 einstaklingar í herbergjum sínum á 2. hæð hússins. Grunur leikur á að sá fjórði hafi verið heima og yfirgefið 2. hæð fljótt eftir að eldurinn kviknaði. Í íbúðunum tveimur á 2. hæð og á rishæðinni bjuggu 13 manns, þar af sex á rishæðinni í fjórum aðskildum herbergjum með sameiginlegt eldhús og baðherbergi. Á 2. hæð bjuggu átta manns í sex aðskildum herbergjum með sameiginlegt eldhús og baðherbergi. Á 2. hæð í viðbyggingunni og á 1. hæð bjuggu líklega um 10 manns en það var ekki kannað sérstaklega í þessari rannsókn.“ — Það var ekki kannað sérstaklega í þessari rannsókn af því að rannsóknin sneri bara að húsinu þar sem eldsvoðinn átti sér stað.

Þessi lýsing er dæmigerð fyrir þær aðstæður sem þúsundir einstaklinga búa við hér á landi. Það eru næstum fjögur ár liðin síðan þetta átti sér stað og enn er þetta staðan. Oft eru þetta einstaklingar sem koma til landsins til skamms tíma, t.d. vegna starfa hér á landi, þetta eru einstaklingar sem eru kannski ekki endilega með miklar tengingar við landið þannig að það er ekki hægt að fá inni hjá ættingjum eða vinum eða kannski búa ættingjar og vinir ekki við þær aðstæður að geta boðið fleirum heim til sín. Þannig að þetta eru einstaklingar sem leita út á leigumarkaðinn nema, viti menn, hann er ekki til staðar hér á landi að heitið geti. Það er hægara sagt en gert að verða sér úti um hagstætt húsnæði á leigumarkaði, hvað þá ef þú ert ekki með tengingar hér á landi. Þessum einstaklingum er þannig í auknum mæli komið fyrir í atvinnuhúsnæði sem eigendurnir hafa tekið sig til og breytt þannig að hægt sé að koma því í leigu sem ólöglegu íbúðarhúsnæði. Þetta hefur þær afleiðingar að þessir einstaklingar geta ekki skráð lögheimili hér á landi, geta ekki skráð lögheimili í húsnæðinu sem þau búa í vegna þess að lögheimili má aðeins skrá í húsnæði sem uppfyllir ákveðin skilyrði og atvinnuhúsnæðið gerir það ekki.

Þetta skiptir máli upp á ýmis réttindi að gera. Þetta skiptir líka máli upp á öryggi fólks að gera. Eins og slökkviliðið hefur ítrekað bent á ber það sig öðruvísi að þegar það mætir á vettvang eftir því hvort eldsvoði virðist tefla lífi fólks í hættu eða um er að ræða bruna þar sem bjarga þarf verðmætum. Ég held að við skiljum það öll að slökkviliðsfólk leggur sig meira fram, það gengur lengra til að bjarga lífi en að bjarga hlutum. En ef ekkert fólk er skráð í húsnæðið þá veit slökkviliðið ekki að þar búi einhver. Það er væntanlega mögulega ein af ástæðunum fyrir því að við höfum núna á síðustu árum upplifað það sem ég held að við verðum að fara að kalla faraldur í eldsvoðum sem bana fólki. Frá því í júní 2020 hafa fimm manns látið lífið hérlendis í bruna í atvinnuhúsnæði. Þess vegna er pínu ergilegt — nei, við þurfum að nota sterkari orð; það lýsir kerfislægum vanda að ekki sé búið að bregðast við af meiri festu fyrr.

Þær breytingar sem lagðar eru til með þessu frumvarpi, að heimila skráningu aðseturs í húsnæði sem ekki uppfyllir skilyrði lögheimilisskráningar, það snýst ekki um réttindi fólks, þetta snýst ekki um að bæta aðstæður þess nema hvað varðar öryggisþáttinn. Þetta er neyðarviðbragð til að reyna að stemma stigu við þessum faraldri eldsvoða þannig að slökkviliðið geti tekið út aðstæður í húsnæði sem ekki er ætlað til búsetu en er engu að síður notað til búsetu. Og þetta er til þess að viðbragðsaðilar geti vitað hvar fólk er að finna þegar kviknar í. Hér er ekki verið að lækna sjúkdóminn, það er verið að setja plástur á einn örlítinn blett af völdum hans. Auðvitað þurfum við að gera þessa heimild að lögum, um það eru allir umsagnaraðilar sammála, auðvitað þarf að tryggja grundvallaröryggi þess fólks sem býr í atvinnuhúsnæði og horfast í augu við að það er veruleiki þúsunda á Íslandi í dag.

Í greinargerð með frumvarpinu minnir mig að sé talað um 4.000 manns, í tillögum samráðsvettvangs um úrbætur á brunavörnum, sem komu út í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg — nei, það var ekki í þeim, það var í annarri skýrslu um fjölda skráninga í íbúðarhúsnæði, þar var slumpað á að þetta gætu verið 5.000–7.000 manns. Staðreynd málsins er væntanlega sú að við bara vitum það ekki. Við vitum hins vegar að þetta er hópur sem er bara á við mörg af okkar stærri sveitarfélögum og býr við óviðunandi og hættulegar aðstæður. Auðvitað þurfum við að kortleggja hvar fólk býr og gefa slökkviliði verkfæri til þess að kanna aðstæður og bæta úr þeim. Við hefðum auðvitað átt að gera þetta nánast strax eftir brunann á Bræðraborgarstíg. Í dag ættum við því miklu frekar að vera að ræða einhverjar breytingar til lengri framtíðar, eitthvað sem lagar undirliggjandi vandann. Undirliggjandi vandinn er náttúrlega óheilbrigður húsnæðismarkaður. Eins og svo oft áður þá er þetta staða sem verður til vegna þess þrýstings sem er á húsnæðismarkaði, vegna þess að framboð og eftirspurn hafa í allt of mörg ár ekki haldist í hendur.

En það eru praktísk atriði sem væri hægt að grípa til sem myndu skila árangri. Mig langar að nefna að í þessum tillögum samráðsvettvangs um úrbætur eru tillögur að 13 atriðum sem bæta má úr. Þetta frumvarp hér tekur á þremur af þessum 13 tillögum að einhverju leyti. Sumar af þessum tillögum eru komnar í framkvæmd, aðrar eru enn í vinnslu. Mig langar sérstaklega að nefna eina af þeim sem eru í vinnslu — í kjölfar orða hv. þm. Ingu Sæland hér áðan um að auðmenn ættu aðeins of ljúfa daga undir verndarvæng þessarar ríkisstjórnar vegna þess að fólkið sem leigir út þetta óleyfishúsnæði grunar mig að sé nú oft í þeim hópi — en 13. tillaga starfshópsins snýr að því að auka hvata til brunavarna í gegnum brunatryggingar. Þetta er bara sáraeinfaldur efnahagslegur hvati sem er lagður til. Það er lagt til að lögum um brunatryggingar verði breytt þannig að forsendur brunabótamats verði tengdar við brunavarnir og vátryggingafélögum verði gefnar auknar heimildir til að skerða bætur ef brunavörnum er ekki sinnt. Það er kannski dálítið kaldranalegt að segja það en ég hugsa að ef húsnæðiseigandi sér fyrir sér að tapa stórum fjárhæðum á því að hús með íbúum í atvinnuhúsnæði í hans eigu myndi brenna, og þá myndi hann tapa pening, umtalsverðum fjárhæðum, þá held ég að það myndi hvetja viðkomandi jafnvel enn frekar til að gera úrbætur en bara sú móralska staðreynd að vilja ekki vera eigandi húss þar sem einhver gæti látið lífið í bruna. Þess vegna er miður að þetta sé ein af þeim tillögum sem eru bara í vinnslu eins og virðist vera með þær tillögur sem er mest bit í varðandi þennan vanda.

Annað sem er nefnt í tillögunum er að tryggt verði að íbúðarhúsnæði sé ekki tekið í notkun án þess að fram hafi farið öryggisúttekt fyrir eða samhliða lokaúttekt. Þetta er atriði sem tekur ekki á búsetu í atvinnuhúsnæði þar sem hér er um íbúðarhúsnæði að ræða. Þetta er samt angi af sama meiði vegna þess að hér er um að ræða eitthvað sem þyrfti að útfæra í gegnum endurskoðun á byggingarreglugerð sem er í gangi, varðandi byggingareftirlit og líka varðandi þá virðingu sem við sýnum byggingarreglugerð. Byggingarreglugerð er nefnilega þegar upp er staðið eitt mesta öryggistæki samfélagsins þar sem hún skilgreinir ekki bara hvernig best er að reisa hús sem standa frekar en hrynja, sem þola jarðskjálfta frekar en að hrynja, sem eru með öruggum flóttaleiðum, sem eru með viðunandi brunavarnir — og hér hefur því miður orðræðan á síðustu árum ekki verið nógu jákvæð. Frá því að byggingarreglugerð var endurskoðuð í heild sinni fyrir rúmum áratug höfum við séð hagsmunaöfl ítrekað tala gegn ákveðnum grunnstefum í reglugerðinni og þá sérstaklega hugmyndafræði algildrar hönnunar. Það sem fólk sér gjarnan fyrir sér sem algilda hönnun er að húsnæði geti sinnt þörfum fatlaðs fólks; að hurðarop séu nógu breið fyrir hjólastóla, að þröskuldar séu fjarlægðir, að hús séu aðgengileg, en algildri hönnun fylgja líka kostir fyrir alla notendur húsnæðis vegna þess að — ja, tökum sem dæmi greiðar flóttaleiðir, þær eru greiðar ef þær eru hannaðar með þarfir allra í huga. Tökum bara dæmi um útidyr með pumpu. Þær pumpur eru stundum það stífar að fólk með skerta hreyfigetu á erfitt með að opna þær. Hvað gerir það fólk í bruna? Ég held að þetta sé eitthvað sem hefði mátt spýta í lófana varðandi.

Af því að ég sé að tíminn er eitthvað farinn að styttast hjá mér þá langar mig að nefna atriði sem ég nefndi í andsvörum við hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, framsögumann nefndarálits, annars vegar aðeins aftur varðandi möguleikann til — það er varla einu sinni hægt að kalla það refsiúrræði heldur möguleika til þess að húsnæðiseigendur sem breyta húsnæði þannig að það uppfyllir ekki lög og reglur um brunavarnir, að þeim verði refsað og fái ekki greitt úr tryggingum ef upp kemur eldur og skemmdir. Þetta er eitthvað sem mætti líkja við það að ef skoðunarlaus jeppi myndi valda dauðaslysi þá væri það ekki hlutverk trygginga að hlaupa undir bagga með þeim sem yrði valdur að því og bæta viðkomandi tjón.

Síðan er það atriði varðandi upplýsingagjöf, sem ég treysti að hv. þm. Ingibjörg Isaksen taki áfram með sér til ráðuneytisins eins og hún nefndi að hún myndi gera. Öll þessi mörg þúsund einstaklinga sem búa í atvinnuhúsnæði og þyrftu að þessum lögum samþykktum að skrá aðsetur þar eru gjarnan fólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Þess vegna þyrfti jafnvel að fara í einhvers konar sérstakt átak til að ná til þeirra og koma til þeirra upplýsingum á viðeigandi hátt til þess að gera þeim ljóst að þessi skráning standi til boða og sé í þeirra hag.

Kannski erum við þá komin aftur að upphaflega punktinum um það hvers vegna við erum á þessum stað, ekki komin lengra en raun ber vitni, þremur og hálfu ári eftir að þrjú létust við Bræðraborgarstíg og svo tvö önnur sem hafa látist í bruna í atvinnuhúsnæði. Það að ekki sé meiri asi á stjórnsýslunni en raun ber vitni — við þurfum að horfast í augu við hvort það gæti verið vegna þess að hér er um að ræða (Forseti hringir.) einstaklinga sem koma til landsins. Þetta eru útlendingar sem hafa ekki fengið þá áheyrn (Forseti hringir.) sem þau eiga skilið, hvorki hjá okkur né í ráðuneytinu.