131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.

168. mál
[10:46]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn en það kom fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra að fyrirhugað sé að setja á laggirnar nýja og langþráða heilsugæslustöð fyrir íbúa Voga- og Heimahverfis á næstunni. Í því sambandi langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hafi tekið ákvörðun um rekstrarform hinnar nýju stöðvar, ekki síst í ljósi góðrar reynslu hæstv. heilbrigðisráðherra af samningum við einkaaðila um rekstur heilsugæslustöðva sem hann hefur lýst hér á hinu háa Alþingi, bæði varðandi heilsugæslustöðina í Salahverfi og ekki síður þá í Lágmúla sem, eins og kom fram í ræðu minni áðan, hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst sem mjög hagkvæmri, vel rekinni og afkastamikilli heilsugæslustöð.

Ég vil spyrja ráðherrann, ítreka það, hvort hann hafi tekið ákvörðun um rekstrarform hinnar nýju stöðvar.