135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

öryggismál í sundlaugum.

316. mál
[15:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sátt við að hæstv. umhverfisráðherra telji ekki nauðsynlegt að gera sérstaka úttekt vegna þessa máls. Ég bendi á að tvö svona slys hafa orðið, í Elliðaánum og Varmá í Hveragerði. Það er ekki um sligandi marga staði að ræða þar sem sundlaug er í næsta nágrenni við mikilvæga á sem menn nýta í sambandi við veiðar.

Ég tel þetta alls ekki sligandi verkefni, það er frekar lítið mál að gera svona úttekt. Það þarf bara að fara í það verkefni. Það eru geysilega miklir hagsmunir í húfi, bæði umhverfislegir og líka fjárhagslegir. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að íhuga þetta betur.

Ég heyri að það er verið að endurskoða reglugerðina í ráðuneytinu um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra aftur hvort við megum búast við því að hert verði á reglunum varðandi þetta atriði, að skýrari reglur komi um þessi mál þannig að hugsanlega sé hægt að fyrirbyggja svona slys með harðari reglugerð.

Varðandi það að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sé ábyrgt, jú, það er rétt, sveitarfélögin eru ábyrg gagnvart því að hafa þetta allt í lagi hjá sér. Hins vegar vinna þau eftir lögum, reglum og reglugerðum sem ráðherra setur þannig að það er geysilega mikilvægt að reglurnar séu skýrar. Fyrir utan það held ég að það sé mjög mikilvægt að gera úttekt. Það er ekki svo mikið mál, það er frekar lítið mál. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að endurskoða þá ákvörðun sína að fara ekki í úttekt og íhuga hvort ekki sé rétt að gera það. Þetta eru ekki margar ár, en þetta eru stórir hagsmunir.