141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að aðferðafræðin gerir okkur hér á Alþingi að taka hina endanlegu ákvörðun um röðun og rammann. Í Noregi hafa menn farið þá leið að láta tillögur starfshópanna og verkefnisstjórnar standa óbreyttar. Líkur eru til að það skapi meiri sátt. Minni átök, meiri sátt. Við erum búin að fara í gegnum mikil átök og deilur um nýtingu eða náttúruvernd á síðustu árum. Rauði þráðurinn, kjarninn í rammaáætluninni, er að mynda faglegan grundvöll undir allar þessar ákvarðanir.

Það er líka nýting að vernda og friða og varðveita náttúruperlur ósnortnar fyrir komandi kynslóðir sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn o.s.frv. Svo eru miklir hagsmunir undir í öðrum tilfellum um að skaffa orku bæði til stóriðju og almennra markaða o.s.frv. Ég hefði viljað sjá rammaáætlun öðruvísi setta upp. Ég hefi viljað sjá aðra hluti í biðflokki, aðra hluti í friðun. Ég hefði t.d. getað fellt mig við að Urriðafoss yrði settur í friðun en eitthvað annað í nýtingu í staðinn, en þetta er ekki pólitískur óskalisti eins eða neins. Að því leytinu þurfum við að beygja okkur undir aðferðafræðina sem hér var sett samhljóða á Alþingi fyrir rúmu ári síðan, en í framhaldinu að endurskoða hana þannig að rammaáætlun geti orðið grundvöllur enn meiri sáttar.

Það verður aldrei fullkomin pólitísk sátt, hvorki um rammaáætlun né stjórnarskrá. Það verða alltaf pólitísk átök um þær. Mestu skiptir er að vera sammála um aðferðafræðina, leiðina sem við veljum til að ná niðurstöðunni þannig að út úr henni komi minni átök og meiri sátt. Bæði um ákvarðanir um hvað við ætlum að friða, hvað við ætlum að vernda og hitt hvað við ætlum að virkja, því að um fátt hafa verið meiri átök í íslensku samfélagi en akkúrat þetta.

Í niðurstöðu nefndarálits meiri hlutans segir:

„Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi.“

Ég tek undir (Forseti hringir.) það og hvet Alþingi til að (Forseti hringir.) klára málið en um leið að endurskoða aðferðafræðina þannig að hún verði grundvöllur enn frekari sáttar í framtíðinni.