141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um rammaáætlun. Eins og fram hefur komið er það eitt mikilvægasta mál þingsins sem það hefur til umfjöllunar núna og í þjóðhagslegu samhengi er gríðarlega mikilvægt og víðtækt. Við höfum farið yfir það hver áhrifin hafa verið af þeirri frystingu sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett þessi mál í á kjörtímabilinu. Afleiðingarnar birtast okkur í atvinnuleysi í stað þess að hér hafi fjölgað störfum eins og við höfum haft öll tækifæri til með því að stíga áfram varlega til jarðar í nýtingu orkuauðlinda okkar og halda áfram á þeirri braut sem búið var að varða.

Í dag er ríkisstjórnin að setja á laggirnar í samvinnu við sveitarfélög einhvers konar atvinnubótavinnu. Það á að búa til störf hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, við þessar erfiðu aðstæður, 3–4 þús. störf. Þetta er gert á sama tíma og það liggur fyrir að ef við hefðum tekið þær ákvarðanir 2010 og 2011 sem hefðu verið eðlilegar í framgangi virkjunarframkvæmda í landinu væru sennilega að skapast á næsta ári um 5 þús. störf út af uppbyggingu orkumannvirkja og iðnaðarfyrirtækja sem væru að skjóta rótum og hefja starfsemi með það fyrir augum að nýta þessa orku.

Þetta er gríðarlega alvarlegt að við þurfum að beita félagslegum aðgerðum til að skapa fólki lífsviðurværi á sama tíma og hér gefast öll tækifæri til að skapa mjög verðmæt störf, störf sem mundu skila sér í auknum útflutningsverðmætum fyrir þjóðina. Virðulegi forseti. Það er fáránlegt að við skulum vera í þessari stöðu með þau tækifæri sem fyrir okkur liggja.

Mig langar aðeins að ræða líka þær áherslur sem koma fram í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar og hversu mikla áherslu ríkisstjórnin leggur á að fara frekar í jarðvarmavirkjanir en vatnsaflsvirkjanir með því að taka út okkar bestu kosti í næstu skrefum í vatnsaflsvirkjunum en halda inni svo til eingöngu orkukostum eða virkjunarmöguleikum í jarðvarma. Eins og fram hefur komið í umræðunni er grundvallarmunur á nýtingu jarðvarma og byggingu vatnsaflsvirkjana.

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að halda áfram á sviði jarðvarmavirkjana. Við höfum langa reynslu, langa sögu, í byggingu þeirra. Hún hófst norður í Kröflu í kringum 1974 þegar Kröflunefnd var stofnuð. Reynslan er góð af Kröflusvæðinu og af Kröfluvirkjun þegar á heildina er litið. Á þeim tíma var mikið um að raforka væri framleidd með dísilvélum og þurfti að auka raforkuframleiðslu á svæðinu. Það var farið í 60 megavött og síðan hefur þessi virkjun verið stækkuð og áform eru um að stækka hana enn frekar. Þegar sagt er að jarðvarmavirkjanir séu lakari kostur en vatnsaflsvirkjanir er fyrst og fremst verið að horfa til þess að lengri tíma tekur að byggja upp mannvirkin og orkunýtingu jarðhitasvæðanna. Það þarf meiri aðlögun. Við verðum að byrja smátt og byggja upp í þrepum, um það eru allir sammála.

Við erum vonandi að ná tökum á menguninni með nýrri tækni. Í framtíðinni verður notuð mjög breytt tækni við nýtingu jarðvarma sem getur falið í sér minna jarðrask og haldið vel utan um svæði sem eru kannski viðkvæmari en önnur. Skáboranir eru til dæmis eitt af þessu. Nú er hægt að bora um 1,3–1,4 kílómetra á ská inn undir jarðhitasvæði. Í olíuvinnslu eru menn farnir að ná þeim árangri að geta borað allt upp í 9 eða 10 kílómetra, að ég held. Við munum sjá þegar tæknin gengur fram (Forseti hringir.) hversu gríðarlegar breytingar geta orðið (Forseti hringir.) við vinnslu jarðvarmans. Þess vegna eigum við að sjálfsögðu að halda áfram á þeirri braut (Forseti hringir.) en við eigum ekki að setja vatnsaflskostina til hliðar.