141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt innlegg. Fyrr í dag var ég að velta fyrir mér hvað gerist verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt. Á bls. 25 í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar segir, með leyfi herra forseta:

„Meiri hlutinn beinir því enn fremur til ráðherra og Alþingis alls að:

a) meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana,

á) láta störf næstu verkefnisstjórnar taka einnig til annarrar orkuvinnslu en úr vatnsafli og jarðvarma, svo sem möguleika á vindorku og sjávarfallaorku, og haga vinnunni þannig að þessir framtíðarkostir yrðu metnir í samhengi við þörf fyrir jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir.“

Mér finnst hér verið að víkka allverulega umboð verkefnisstjórnarinnar. Ég spyr hv. þingmann hvort verkefnisstjórnin eigi, þegar rætt er um smærri virkjanir, að fjalla um ef virkja á bæjarlækinn við sveitabæinn. Þarf að leita til verkefnisstjórnarinnar sem fer yfir öll samfélagsleg áhrif sem sú litla virkjun mun valda? Á hvað er verið að opna hér?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann viti af hverju verið sé að fela verkefnisstjórninni að rannsaka sérstaklega virkjunarkostina í Þjórsá frekar þegar við höfum horft upp á það á undangengnum árum að framkvæmdaraðilar annast þessar rannsóknir. Nú á þessi verkefnisstjórn allt í einu að fara í einhverjar umfangsmiklar rannsóknir á, ég veit ekki hvað það er, vistkerfinu eða hvað það er. Maður veltir fyrir sér hvað þetta kosti allt og hver eigi að borga. Hefur hv. þingmaður eitthvað hugleitt þennan þátt málsins?