141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Ég vil spyrja þingmanninn út í það hvort hann telji að það sé vísvitandi gert hjá meiri hlutanum og ríkisstjórninni, eða hvort þeir hafi ekki hreinlega vald á málunum — það er búið held ég að ræða það alveg til þrautar og ég held að það sé nokkur viðurkenning á því að ekki er neitt jafnvægi í þingsályktunartillögunni eins og hún lítur út núna. Það er búið að taka út þær vatnsaflsvirkjanir sem menn hafa verið með svona minni almenna fyrirvara við, ekki síst umhverfislega. Allt var þetta gert á grundvelli umhverfislegra þátta en inni eru jarðvarmavirkjanir sem menn hafa meiri umhverfislegar áhyggjur af, en þetta er samt niðurstaðan.

Hér nefndi hv. þingmaður Orkustofnun og hvaða álit þeir hafa á að byggja upp orkukerfið með tilliti til þess að nýta annars vegar vatnsaflsvirkjanir og hins vegar jarðvarmavirkjanir og aðra mögulega virkjunarkosti. Þessi sama ríkisstjórn hefur líka talað um að fara að selja orku í gegnum sæstreng og hefur skipað sérstakan hóp til að skoða það. Það tekur nokkur ár í skoðun og svo á að fara að virkja. En hvað á að virkja? Hvar er samhengið á milli hlutanna?

Í forsendum fjárlaga er talað um hagvaxtarspá sem byggist meðal annars á stóriðju, til dæmis á norðausturhorninu. Í sömu fjárlögum eru hins vegar engir fjármunir settir til þess að styrkja þá innviði sem eru forsenda fyrir þeirri uppbyggingu.

Eru þetta að mati þingmannsins klaufaleg mistök eða er þetta markvisst gert til þess að halda niðri þeirri starfsemi í orkugeiranum sem ákveðin öfl innan Samfylkingarinnar og stærsti hluti Vinstri grænna hafa lýst yfir að sé hin yfirlýsta stefna, að stöðva alla orkunýtingu í landinu?