141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegast væri fyrir þá sem halda á málum og stjórna dagskrá þingsins að taka svona mál út úr umræðunni og reyna að ná einhverri lendingu sem sátt gæti verið um. Það eru skynsamleg vinnubrögð við aðstæður þegar allt er í háalofti út af máli af þessu tagi, ekki bara í háalofti milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur líka innan flokka. Það væri miklu skynsamlegra en að láta skotgrafirnar dýpka í átökum manna á milli í þingsal. En það velur hver sína aðferð og aðferð ríkisstjórnarinnar eru átök, átök við allt og alla, og jafnvel þá aðila í samfélaginu sem þessi ríkisstjórn hefur stundum viljað kenna sig við, launþegahreyfinguna í landinu.

Nú kann að vera að sú staða sé uppi að í forustu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar sé mannvalið orðið þannig að tengslin við verkalýðshreyfinguna séu gersamlega rofin. Það kann að vera að þau tengsl sem einu sinni voru fyrir hendi milli þeirra flokka sem voru á vinstri vængnum í íslenskum stjórnmálum og launþegahreyfingarinnar í landinu hafi algjörlega slitnað, að taug sem lengi var til staðar sé nú slitin. Það kann að vera að núna sé staðan sú að forustumenn Samfylkingar og Vinstri grænna telji sér sæmandi að tala með sama hætti við forustu Alþýðusambandsins og þeir tala við stjórnarandstöðuna á þingi. Við erum svo sem vön þeim tón og þeim steytta hnefa sem við sáum hjá hæstv. atvinnuvegaráðherra í sjónvarpinu í kvöld. (VigH: Rétt.) Við erum vön því að sjá þann stíl hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar (Forseti hringir.) sem sást í sjónvarpinu í kvöld en ég er ekki viss um að Alþýðusambandið sé vant því.