141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að glugga í umsagnir og sá þá að ákveðinn texti sem er að finna í umsögn Suðurorku ehf. hafði farið fram hjá mér þar sem vinna í það minnsta tveggja faghópa er gagnrýnd. Það kemur sem sagt fram í umsögninni sem ég hélt að ég hefði verið búinn að lesa en það hefur greinilega farið fram hjá mér.

Þar segir t.d., með leyfi forseta:

„Faghópur 2 segir það með skýrum hætti í lokaskýrslu verkefnisstjórnar að hópurinn hefði ekki náð að þróa aðferðir sínar til að meta áhrif á ferðamennsku og hlunnindi. Samt skilaði hópurinn niðurstöðu samkvæmt aðferðafræði sem formaður hópsins gat ekki lýst. Það eru ekki fagleg efnistök og niðurstöður því ótrúverðugar.“ Við vissum að það voru ákveðnir erfiðleikar með þetta.

Síðan kemur fram varðandi faghóp 3 að á einum fundi hafi öllum byggðasjónarmiðum og efnahagssjónarmiðum úr rammaáætlun verið hent út vegna þess að faghópur 3 hafi ekki ráðið við verkefni sitt, þ.e. ekki tekist að vinna eftir ákveðnum stöðlum eða viðmiðum, ef ég skil þetta rétt.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta hafði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þá virkjunarkosti sem augljóslega höfðu sterk jákvæð áhrif á nærsamfélag sitt svo ekki sé talað um þjóðhagslegar afleiðingar.

Engin fundargerð frá faghópi 3 hefur verið birt á vef rammaáætlunar. Því er ekki hægt að staðfesta hvernig fagfólkið komst að því að best væri að sleppa byggðasjónarmiðum úr rammaáætlun.“

Ég verð nú að viðurkenna, herra forseti, að ég var ekki búinn að átta mig á þessu er varðar byggðaáhrifin og gagnrýnina. Það er vitanlega grafalvarlegt og setur málið nokkuð í nýja stöðu ef það er rétt, sem ég geri (Forseti hringir.) ráð fyrir, að það hafi ekki verið metið.