141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það væri spennandi að fá að vita við hvaða aðstæður þingmaðurinn telur gott að vera á miðjunni, en mörgum okkar finnst það yfirleitt mjög gott.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í söguna því að hann nefndi að þegar hinir svokölluðu stóriðjuflokkar voru í ríkisstjórn hefði verið nokkuð góður friður um þetta ferli. Þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru saman í ríkisstjórn var nokkuð góður friður um að halda svona á þessum málum og vinna í þeim. Síðan fór annar hinna svokölluðu stóriðjuflokka, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, í stjórnarsamstarf með útrásarflokknum, Samfylkingunni, sem studdi útrásarvíkingana óspart. Áfram var samt friður um rammaáætlunina, þokkalegur friður alla vega, unnið dag og nótt í henni. Síðan gerist það að hinir svokölluðu Alþýðubandalagsflokkar, sem hv. þingmaður kallar svo skemmtilega úr þessum ræðustól, komust í ríkisstjórn. Þá var friðurinn úti, þá fyrst var friðurinn úti. Þegar flokkarnir og sérstaklega annar flokkurinn sem kennir sig við umhverfisvernd komast að, fá að stjórna, fá að ráða för, þá er ferlið sett í uppnám, þá er þeirri sátt sem ríkt hefur í mörg ár ýtt til hliðar. Út af hverju? Jú, menn viðurkenna það í rauninni blygðunarlaust, mundi ég segja, að pólitíkin hafi þurft að koma að þessu, þeirra pólitík, pólitíkin sem var mönnum ekki ofarlega í huga þegar sáttin var í gangi, þegar menn ætluðu að láta sig hafa það, virkjunarsinnar og umhverfisverndarsinnar, að mætast í rammaáætluninni. Loksins þegar Alþýðubandalagsflokkarnir fengu tækifæri (Forseti hringir.) þá var sáttin úti.