143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

ferðaþjónusta fatlaðra.

[15:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil bera upp fyrirspurn til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um ferðaþjónustu við fatlaða. Lög um málefni fatlaðra tóku gildi í janúar 2011 og eiga að endurskoðast fyrir lok þessa árs. Heilt yfir hefur yfirfærsla málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga gengið vel þó að vissulega hafi komið upp dæmi þar sem óánægja hefur verið með framkvæmd laganna og hvernig fjármagni er skipt á milli og innan svæðisumdæma málefna fatlaðra.

Hugmyndafræðin var að árið 2014 verði fjárframlög eyrnamerkt einstaklingum þegar kemur að fjárstreymi til málaflokksins, en aðstaða fatlaðra milli svæða hefur reynst mismunandi og dæmi eru um að lögbundnum ákvæðum um ferðaþjónustu við fatlaða sé ekki framfylgt, sem ég tel vera klárt mannréttindabrot gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

Hvernig geta fatlaðir einstaklingar framfylgt rétti sínum til ferðaþjónustu þegar sú þjónusta er ekki í boði?

Hvað verkferlar og þvingunarúrræði eru til staðar ef brotið er á fötluðum einstaklingi hvað varðar ferðaþjónustu við hann og hefur ráðuneytið í skoðun tilfelli þar sem brotið er á réttindum fatlaðra einstaklinga til ferðaþjónustu?

Telur ráðherra þörf á að fá fram lagabreytingu til að skoða þvingunarúrræði á framfylgni einstakra sveitarfélaga um framkvæmd laga um málefni fatlaðra, og mun hæstv. ráðherra þá beita sér í því máli ef þörf er á?