143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

ferðaþjónusta fatlaðra.

[15:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað þetta málefni varðar. Þetta er mjög mikilvægt, þetta er undirstaðan fyrir frelsi fatlaðra einstaklinga til að fá að taka virkan þátt í lífinu og í sínu samfélagi, að sjálfsögðu er þetta mjög mikilvægur þáttur. Ég er alls ekki að segja að við séum ekki tilbúin til að huga að þessu, nema sem hluta af yfirferð yfir yfirfærsluna.

Ein af tillögunum sem sneri almennt að ferðamálum fatlaðs fólks — starfshópur var starfandi — gekk út á að við ættum að fara í ákveðnar lagabreytingar nú þegar. Ráðuneytið er því að huga að því. Ég tel líka mjög mikilvægt að við nýtum þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum sem allra best, að þeir fari til þeirra sem þurfa virkilega á þeim að halda.