145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir að eiga orðastað við hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur. Hv. þingmaður er fyrsti varaformaður velferðarnefndar og þar með trúnaðarmaður síns flokks á því málasviði. Ég vil spyrja enn og aftur um kjör aldraðra og öryrkja og útkomu þeirra á þessu ári. Ég vil einfaldlega spyrja hv. þingmann hvort hún ætli eða vilji beita sér fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái einhverjar kjarabætur hliðstæðar þeim sem aðrir hafa fengið á þessu ári og þá auðvitað afturvirkt til að nálgast það sem aðrir hafa fengið með umsömdum launahækkunum frá og með 1. mars eða 1. maí á þessu ári með úrskurði gerðardóms sem var afturvirkur til svipaðs tíma eins og í tilviki BHM til 1. mars eða nú með úrskurði kjararáðs til æðstu embættismanna, okkar sjálfra þar á meðal, sem var afturvirkur til 1. mars.

Telur hv. þingmaður að það gangi upp að 3% hækkun í byrjun árs jafni kjör þessa hóps við almenna launamenn, vinnumarkaðinn sem nánast í heild sinni er væntanlega að fá launahækkanir samkvæmt vísitölu um 7–8% milli ára? Hv. þm. Karl Garðarsson má hafa þá skoðun fyrir mér að 3% séu það sama og 7–8% en ég tel það ekki. Ég spyr hv. þingmann sem hefur haft ummæli í þá veru að hún vilji beita sér í þessum efnum: Hyggst hv. þingmaður beita sér fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái afturvirka leiðréttingu sinna mála á þessu ári? Hver er hennar afstaða til þess?


Efnisorð er vísa í ræðuna