146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:03]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma upp og taka undir orð hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um að það er alveg fráleitt að engar sérstakar umræður muni verða í þessari viku. Þetta er málstofa Alþingis þar sem við ræðum formlega um ýmis mál, ekki bara frumvörp ríkisstjórnarinnar þegar henni hentar, heldur er mjög mikilvægt að við eigum umræðu um önnur mikilvæg mál. Að ríkisstjórnin hafi loksins ákveðið eða séð sér fært að afgreiða einhver mál af sinni hálfu þýðir ekki að restin af daglegum störfum þingsins og hlutverki þessarar málstofu sé ekki sinnt.

Að sama skapi langar mig til að vekja athygli á því að nokkrir hv. þingmenn Pírata hafa beðið lengi eftir því að komast að og eiga orðastað við ákveðna hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherrar afboðuðu þátttöku á þessum fundi í dag, jafnvel þótt ég sjái að þeir sitja hér í salnum. Ég geri athugasemd við að við þurfum að bíða svona lengi eftir því að fá svör. Sumar spurningar eru aðeins (Forseti hringir.) óþægilegri en aðrar eins og sumar hv. sérstakar umræður greinilega líka.