146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

áform um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum.

[15:40]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um fjármálastefnu sem byggist að miklu leyti til á því hvernig við náum að greiða niður lán ríkissjóðs. Það segir hér, með leyfi forseta, í nefndaráliti meiri hlutans:

„Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.“

Við erum að tala um stefnu sem byggir á því að selja eitthvað sem engin eru áform um að selja heldur eru bara einhverjar hugmyndir. Á þessu grundvallast heil fjármálastefna til fimm ára.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þessa lógík í orðum hæstv. fjármálaráðherra þegar kemur að því hvort eigi að selja banka eða ekki selja banka. Ég skil ekki hvernig hann getur réttlætt það að leggja fram fjármálastefnu til fimm ára sem byggist að miklu leyti á því, samkvæmt þeim orðum sem koma frá hv. fjárlaganefnd þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með forsæti, að það eigi að selja banka. Síðan kemur og hann og segir: Ja, kannski koma einhverjar arðgreiðslur, sem eru bara dropi í hafið miðað við hvað (Forseti hringir.) við myndum fá fyrir það að selja banka.

Ég skil hreinlega ekki (Forseti hringir.) þessa lógík hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég skil ekki hvernig hann getur komið hingað í pontu (Forseti hringir.) og sagt að það séu engin sérstök áform, síðan eru bara mjög sérstök áform um að selja banka.